Skapaði verulega fjártjónshættu

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis.
Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðskiptalegar forsendur lágu ekki að baki lánveitingum Glitnis banka til félagsins Stím en samtals runnu 22,7 milljarðar króna út úr bankanum vegna kaupa félagsins í honum. Heildarfjárfestingin hljóðaði upp á rúma 25 milljarða króna. Þetta kom fram í máli Hólmsteins Gauta Sigurðssonar saksóknara í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem málflutningur fór fram í svonefndu Stím-máli.

Málið snýst í stuttu máli um meint umboðssvik Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, og Jóhannesar Baldurssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta bankans. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrum bankastjóri Saga Capital, er einnig ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Lárus er ákærður vegna lánveitinga Glitnis til félagsins FS37, sem seinna varð Stím, upp á 20 milljarða króna til að kaupa 4,3% hlut í bankanum og 4,1% í FL Group. Bréfin voru keypt af Glitni sem átti þau. Veðið fyrir lánveitingunni var allt hlutafé í Stími og bréfin í FL Group auk þess sem nokkrir hluthafar í félaginu lögðu fram eigið fé. Veðsetning félagsins var 80% í upphafi.

Stím í raun stjórnað að Glitni banka

Saksóknari ítrekaði kröfur í ákæru um að ákærðu yrðu dæmdir til refsingar auk greiðslu alls sakarkostnaðar en allir ákærðu voru viðstaddir réttarhöldin í morgun. Lárus hafi gerst sekur um umboðssvik með því að misnota aðstöðu sína með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með láninu til Stím og stefnt hagsmunum Glitnis banka í verulega hættu og skapað bankanum þannig verulegri fjártjónshættu. Fáránlegt væri að halda því fram því að Glitnir hafi verið betur settur með því að selja bréfin til Stím en eiga það. Eðlilegast hefði verið að selja þau á markaði.

Saksóknari sagði gögn ennfremur málsins sýna að Glitnir hafi í raun stýrt Stím þrátt fyrir að formlega hafi stjórn félagsins legið annars staðar. Þannig hefði framkvæmdastjóri þess ekki tekið neinar sjálfstæðar ákvarðanir. Vísaði hann til framburða vitna í þeim efnum. Sagði hann að mat ákæruvaldisins væri að engar viðskiptalegar forsendur hafi legið umræddum viðskiptum til grundvallar. Ljóst hafi verið að bréf í Stím væru lækkandi sem þýddi að veðin fyrrir lánveitingunni rýrnuðu.

Fór ekki með lánveitinguna fyrir stjórn

Lagði saksóknari áherslu á að Lárusi hafi borið að fara með lánveitingar Glitnis banka til Stíms fyrir stjórn bankans en það hafi hann hins vegar ekki gert. Gögn málsins sýndu fram á það. Stjórnarmenn Glitnis kannist ekki við að hafa fengið lánveitingar til Stím til umfjöllunar. Vísaði saksóknari sömuleiðis til tölvupóstsamskipta þar sem Lárus hafi ítrekað verið spurður hvort málið hefði verið lagt fyrir stjórn bankans en hann hafi ekki svarað þeim spurningum. Ljóst væri að sú hafi ekki verið raunin.

Lárusi hafi ekki getað dulist hvaða reglur hafi gilt í þessum efnum innan bankans. Honum hafi sömuleiðis mátt vera ljóst að með viðskiptunum skapaði hann Glitni banka verulegri fjártjónshættu. Saksóknari sagði að hafa yrði í huga í þessu sambandi að Lárus hafi haft mikla reynslu af bankastarfsemi. Þá hafi hann tekið þátt í fundum á vegum bankans þar sem sérstaklega hafi verið rætt um reglur hans um lánveitingar. Lárus gæti því ekki borið fyrir sig mistök í málinu. Því væri rétt að sakfella hann fyrir umboðssvik með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert