Ahmad Seddeeq, ímam Menningarseturs múslima, segir Stofnun múslima á Íslandi hafa fengið fjármagnið sem sendiherra Saudí Arabíu ræddi við forseta Íslands. Segist hann sjá tilefni til að skýra stöðuna vegna frétta af viðbrögðum forsetans við yfirlýsingu Sádi-Araba um fjárstyrk við trúfélög á Íslandi. Skemmdarverk voru unnin á húsnæði Menningarsetursins yfir helgina en ekki er ljóst hvort þau eigi sér rætur í trúar- eða kynþáttahatri.
„Ég vil staðfesta að fólk er að rugla saman tveimur hlutum. Menningarsetrið er formlegt trúfélag hér á Íslandi, annað tveggja trúfélaga íslam hér á landi, og við höfum ekki fengið þennan pening.“
Hitt trúfélagið, Félag múslima á Íslandi, hefur einnig vísað því á bug að það hafi fengið nokkurt fjármagn í hendur en það er Félag múslima en ekki Menningarsetrið sem stendur fyrir byggingu mosku við Suðurlandsbraut.
Ólafur Ragnar tjáði sig við Ríkisútvarpið í gær um yfirlýsingu sendiherra Sádi-Arabíu um að ríkið hygðist styrkja byggingu mosku hér á landi um 130 milljónir króna. Sagði Ólafur sendiherrann hafa komið sér í opna skjöldu.
„... ég vissi eiginlega ekki með hvaða hætti ætti að bregðast við. Þannig að ég varð eiginlega bara svo hissa, og svo lamaður, við þessa yfirlýsingu, að ég tók bara á móti henni, og settist svo niður og hugleiddi hana og taldi svo rétt að segja frá henni, eins og ég gerði,“ sagði forsetinn við Ríkisútvarpið.
„Fólk ruglar þessu saman og af hverju? Jú, af því að eigendur eignarinnar [Ýmishússins] voru þeir sem fengu þetta fjármagn. Þeir eru í Svíþjóð og eiga sér bara einn fulltrúa hér á landi,“ segir Seddeeq.
Kveður hann fyrirtækinu sem eignin er skráð á, Stofnun múslima á Íslandi, vera stjórnað af fimm mönnum, þar af einum hér á landi og fjórum í Svíþjóð. Segir hann fyrirtækið alfarið ótengt Menningarsetri múslima.
„Þeir eru ekki við. Þeir eru öðruvísi, þeir eru með aðra kennitölu, eru ekki trúfélag og eru með þennan bankareikning. Við veltum líka fyrir okkur hversvegna fjármagnið var ekki gefið múslimskum trúfélögum, þannig hefði það átt að vera en þannig er það ekki.“
Seddeeq segir Menningarsetrið leigja Ýmishúsið af Stofnun múslima á Íslandi og tekur fram að leigusamningurinn sé þinglýstur.
„Þetta er mikilvægt. Við ættum ekki að þurfa að bera fólkið sem stendur á bak við þessa stofnun á herðum okkar. Það ætti að tjá sig sjálft enda höfum við ekkert með hana að gera.“
Upphaflega stóð í fyrstu setningu fréttarinnar að ímaminn hefði sagt að Menningarsetrið væri ekki styrkt af Sádi Arabíu. Reyndist hann ekki hafa sagt það berum orðum.