Stórbruni á Selfossi

Frá vettvangi í kvöld.
Frá vettvangi í kvöld. Mynd/Sigmundur Sigurgeirsson

Stórbruni kom upp í Plastiðjunni á Selfossi og stendur húsnæði verksmiðjunnar í ljósum logum. Búið er að rýma nærliggjandi hverfi og segir fréttaritari mbl.is á staðnum að litlar líkur séu á öðru en að slökkviliðið reyni að hemja útbreiðslu eldsins. Ekki sé lengur hægt að bjarga húsinu sem eldurinn kviknaði í.

Plastiðjan er á svipuðum stað og Set röraverksmiðja, en í þeirri verksmiðju hefur tvisvar kviknað áður, síðast fyrr á þessu ári.

Sigmundur Sigurgeirsson, fréttaritari mbl.is, segir að tilkynning hafi borist um eldinn á ellefta tímanum, en reykur liggi nú yfir nærliggjandi íbúðabyggð. Búið sé að rýma Hagahverfið og opna fjöldahjálpastöð í Vallaskóla. Hefur lögregla hvatt fólk til að leita þangað.

„Það er allt í ljósum logum,“ segir Sigmundur og bætir við „slökkviliðið er ekki að fara að gera neitt nema að hemja eldinn. Þeir bjara ekki þessu húsi.“

Nokkur fyrirtæki eru nærliggjandi Plastiðjunni og segir Sigmundur að slökkviliðið horfi nú til að koma í veg fyrir að eldurinn fari yfir í þau hús.

Uppfært 23:05: 

Pétur Pétursson, starfandi slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir að búið sé að rýma Hagahverfi á Selfossi vegna eldsvoðans í Plastiðjunni. Segir hann að vinna sé í fullum gangi, en að eldurinn sé kominn á hnignunarstig. Nú sé verið að passa sig að eldurinn fari ekki í nærliggjandi hús, en fleiri fyrirtæki eru í næsta nágrenni.

„Vonum að við missum ekki meira en þetta,“ segir Pétur, en það lítur út fyrir að verksmiðjan sé orðin eldinum algjörlega að bráð. „Eins og staðan er núna þá er þetta einangrað við Plastiðjuna, við erum að ná tökum á því en það þarf ekki mikið út af að bera,“ segir Pétur.

Björgunarsveitir voru kallaðar út til að rýma Hagahverfi, en hverfið er áveðursmegin við verksmiðjuna. Pétur segir að ef fólk sé enn heima eigi það að loka gluggum og skrúfa upp í kyndingu til að mynda yfirþrýsting þannig að reykurinn leiti ekki inn.

Búið er að opna fjöldahjálparstöð í Vallaskóla og er fólki vísað þangað.

Mynd/Lárus Bjarnason
Mynd/Lárus Bjarnason
Mynd/Lárus Bjarnason
Mynd/Lárus Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert