Einn starfsmaður var inn í verksmiðju Plastiðjunnar á Selfossi þegar eldur kom þar upp í kvöld. Þetta staðfestir framkvæmdastjóri og einn eigandi verksmiðjunnar, Axel Ægisson, við fréttaritara mbl.is á Selfossi. Starfsmaðurinn komst út að sjálfdáðum og lét lögreglu vita og varð ekki meint af.
Var maðurinn einn að störfum í verksmiðjunni þegar rafmagni slær út. Fór hann þó inn í eina geymsluna þar sem geymdar eru öflugar loftpressur, en sér þá mikinn eld koma á móti sér og hleypur út úr húsinu og lætur viðbragðsaðila vita.
Sigmundur Sigurgeirsson, fréttaritari mbl.is, segir að nú sé að auka í vind á Selfossi, en áður hafði slökkviliðið sagt að þeir teldu sig hafa náð tökum á vettvangi þannig að eldur fari ekki í nærliggjandi hús. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, sagði fyrr í kvöld í samtali við mbl.is að verksmiðjan væri alveg brunnin niður. Sigmundur staðfestir að svo sé, en að óvíst sé með afdrif skrifstofuhúsnæðis sem var upp við verksmiðjuna sjálfa.
Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að eldurinn sé kominn á glóðarstig og verið sé að vinna í að slökkva í glæðunum. „Allur eldur er slökktur,“ segir hann.
Pétur staðfestir að einn maður hafi verið inni þegar eldurinn kviknaði en að hann hafi komist ómeiddur út. Segir Pétur að svo virðist vera sem eldurinn hafi komið upp út frá rafmagnstækjum í verksmiðjunni. Verður slökkvilið með vakt á brunastað í alla nótt.