„Þetta var erfið nótt hjá öllum hérna í verksmiðjunni,“ segir Axel Óli Ægisson, framkvæmdastjóri Plastiðjunnar á Selfossi sem brann í nótt. Hann segir altjón hafa orðið á verksmiðjunni sem framleiðir meðal annars plastflöskur fyrir Vífilfell og Ölgerðina.
Eldur kom upp í verksmiðjunni að Gagnheiði 17 í gærkvöldi og stóð slökkvistarf fram á morgun. Formlegu slökkvistarfi lauk um klukkan sjö í morgun en síðan þá hefur slökkvilið þurft að slökkva í glæðum að minnsta kosti tvisvar. Ljóst er að húsnæðið er gerónýtt.
Axel Óli segir að fulltrúar Plastiðjunnar hafi ekki ennþá fengið að fara inn í bygginguna. Lögreglan sé á leið á vettvang að rannsaka orsök eldsins.
Plastiðjan framleiðir meðal annars plastflöskur, drykkjarmál, tappa og dósir. Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru Vífilfell, Ölgerðin, Mjólkursamsalan og fleiri. Framkvæmdastjórinn segist ekki vita hvert framhaldið verður á þessari stundu.