Eiga aðeins birgðir til fárra daga

Ölgerðin leitar nú allra mögulegra leiða til að útvega umbúðir.
Ölgerðin leitar nú allra mögulegra leiða til að útvega umbúðir. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Plastiðjan hefur séð um að blása út plastflöskur fyrir safaframleiðsluna okkar. Þetta er stórt tjón og við erum ekki alveg búin að meta hversu mikið það er nákvæmlega,“ segir Erla Jóna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Ölgerðarinnar.

„Við eigum birgðir eitthvað út næstu viku. Það er stuttur líftími á vörunni, ekki nema sex vikur. Við erum að leita allra mögulegra leiða til að geta fengið þess vöru að utan eða frá öðrum aðila hérna heima en erum ekki komin með niðurstöðu,“ segir Erla Jóna.

Hún segir ekki hægt að meta hversu umfangsmikið tjónið er fyrr en vitað er hvort fyrirtækið geti fengið aðrar flöskur. „Auðvitað yrði það gríðarlegt tjón ef við lendum utan markaðar,“ segir Erla Jóna.

Í húsnæði Plastiðjunnar voru mót sem notuð voru til að blása út flöskurnar. Ekki liggur fyrir hvort hægt verður að nota þau eða hvort þurfi að panta önnur frá útlöndum en þá verður tjónið umtalsvert meira.

Gerir ekki ráð fyrir skorti á Engjaþykkni

Mjólkursamsalan keypti umbúðir fyrir Engjaþykkni, sýrðan rjóma, skyr og ABT-mjólk af Plastiðjunni á Selfossi. Þar sem aðeins þarf að aka í gegnum bæinn til að fara á milli fyrirtækjanna tveggja og því sótti MS aðeins lítið  í senn.

„Við eigum tveggja vikna birgðir núna. Við höfum bara tekið til vikunota þar sem framleiðslan er hérna á staðnum. Þeir sáu um lagerinn og við höfum bara tekið eftir þörfum,“ segir Ólafur Unnarsson, starfsmaður vöruþróunar hjá MS. Fyrirtækið mun nú skipta við Bergplast í Hafnarfirði og munu viðskiptavinir ekki finna afgerandi mun á umbúðunum.

„Áður en við fórum að skipta við Plastiðjuna keyptum við umbúðir fyrir Engjaþykkni af Bergplasti. Þau eiga formin og geta því byrjað að framleiða fljótlega,“ segir Ólafur.

Vonast  hann til þess að ekki verði skortur á Engjaþykkni á markaði en ef svo verður mun hann aðeins vara í skamman tíma. „Þegar ég hringdi í Bergplast í morgun bjóst hann við símtali. Þetta kom þeim ekki á óvart og þeir tóku okkur mjög vel.“

Eiga umbúðir fram á næsta ár

„Við stöndum vel núna, við erum góð fram á næsta ár,“ segir Leifur Grímsson, framkvæmdastjóri Mjólku. Plastiðjan framleiddi umbúðir fyrir Vogaídýfu og sýrðan rjóma fyrir fyrirtækið og er nú verið að leita að staðgengli.

„Við erum að vinna í því hvernig við leysum framhaldið, það er ljóst að það verður töluvert mál. Við erum að kanna hvað er í boði hér á landi og erlendis,“ segir hann. Reynt verður að gera sem minnstar breytingar á útliti vörunnar.

Ólafur Unnarsson, starfsmaður vöruþróunar hjá MS.
Ólafur Unnarsson, starfsmaður vöruþróunar hjá MS. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert