Fékk að fara inn til að sækja börnin

Inga Rún Björnsdóttir, íbúi við Lambhaga 1 á Selfossi, var á leið heim úr göngu með hundinn í gærkvöldi þegar skyndilega var búið að loka götunni. Hún mætti eiginmanni sínum á götuhorninu en hann hafði skroppið á kóræfingu. Í næstu götu var Plastiðjan að brenna til grunna. 

Heima biðu börnin og fékk maðurinn að skjótast inn í húsið til að sækja þau og loka gluggum áður. Fjölskyldan fór ekki í fjöldahjálparstöðina heldur hélt kyrru fyrir hjá vinafólki sínu þar til ljóst var að Brunavarnir Árnessýslu höfðu náð tökum á eldinum.

Börnin voru dálítið skelkuð

Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, sagði í samtali við mbl.is á vettvangi í morgun að um áttatíu manns hefðu komið í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem opnuð var fljótlega eftir að eldurinn braust út í gærkvöldi. 

Að sögn Ingu Rúnar fann fjölskyldan fyrir miklum viðbúnaði í hverfinu. Margir björgunarsveitarmenn voru í hverfinu og gengu hús úr húsi. Íbúar voru beðnir um að yfirgefa hús sín og hvattir til að loka gluggum.

Börn hjónanna voru dálítið skelkuð, sérstaklega sá yngsti. Það varði þó ekki lengi þar sem kvöldið varð heldur ævintýralegra en hefðbundin kvöld með ísbíltúr og heimsókn til vina eftir háttatíma.

Verksmiðja Plastiðjunnar er illa leikin eftir brunann. Framkvæmdastjóri hennar lýsir …
Verksmiðja Plastiðjunnar er illa leikin eftir brunann. Framkvæmdastjóri hennar lýsir tjóninu sem altjóni. mbl.is/Styrmir Kári

Héldu kyrru fyrir heima 

Guðlaugur Hauksson, íbúi á Lambhaga 8, yfirgaf ekki hús sitt í gærkvöldi. Fjölskyldan var farin að sofa þegar björgunarsveitarmenn börðu dyra og vissu þau því ekki af eldinum fyrr en í morgun. Guðlaugur segist þó hafa heyrt í sírenum og eiginkona hans hafi talið sig heyra bank.

„Ég hélt að það gæti ekki verið neitt merkilegt,“ sagði hann í samtali við mbl.is. Einhverra hluta vegna barst ekki lykt frá brunanum inn í húsið en fjölskyldan fann þó vel fyrir lyktinni þegar út var komið í morgun. „Það var varla líft úti í morgun þegar ég var að skafa bílinn,“ sagði Guðlaugur að lokum.

Heitt og kalt vatn flæddi um rústirnar

Allar vatnsdælur á Selfossi voru keyrðar á fullum afköstum í nótt til að útvega vatn fyrir slökkvistörfin og rennsli heft á aðra staði í bænum og í nágrenni hans til að veita sem mestu vatni í Hagahverfið þar sem Plastiðjan var til húsa.

Kári Reynisson, starfsmaður bæjarins, var við störf í morgun þegar mbl.is átti leið hjá. Var hann ásamt tveimur öðrum starfsmönnum að loka fyrir vatnsinntökin en inni í rústunum flæddi heitt og kalt vatn. „Í brunanum bráðnaði endinn á kaldavatnsheimtauginni og við erum að loka fyrir hana. Það er verið að vinna að bráðabirgðalokun inni í húsinu,“ sagði Kári.

Svona var umhorfs þegar ljósmyndari og blaðamaður mbl.is kynntu sér …
Svona var umhorfs þegar ljósmyndari og blaðamaður mbl.is kynntu sér aðstæður nú í morgun. mbl.is/Styrmir Kári
Kári Reynisson við störf í morgun.
Kári Reynisson við störf í morgun. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert