Helgi Kristjánsson hefur starfað hjá Plastiðjunni í tvö og hálft ár og sá hann um eftirlit með vélum, meðal annars þeim sem blása út flöskur. Hann varð ekki var við eldinn enda býr hann fyrir utan Ölfusá.
„Ég var bara heima en fór inn á Facebook fyrir rælni áður en ég fór að sofa. Þá var búið að deila frétt um brunann. Ég bý fyrir utan á og varð í rauninni ekki var við neitt. Ég hafði heyrt væl í sírenum en það er ekki óalgengt,“ segir hann í samtali við mbl.is. Hann mætti því ekki til vinnu í morgun en var kominn á vettvang um ellefuleytið til að virða rústirnar fyrir sér.
Að sögn Helga var töluvert mikið á lagernum eftir hádegi í gær. Stærstu viðskiptavinir fyrirtækisins voru MS, Ölgerðin og Sól. Hann hefur ekki fengið skilaboð frá eigendum fyrirtækisins um næstu skref og veit því ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
„Oddur yfirlögregluþjónn lét mig vita um leið og hann fékk kallið. Við fórum þá í að láta opna fjöldahjálparstöð og sjá til þess að vatnsveita okkar á þessu svæði virkaði sem best með því að loka fyrir aðrar lagnir,“ segir Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, í samtali við mbl.is við rústir Plastiðjunnar á Selfossi.
Um áttatíu manns komu í fjöldahjálparstöðina og voru allir mjög yfirvegaðir og rólegir að sögn Ástu. Voru sumir sofnaðir þegar eldurinn kom upp en björgunarsveitarfólk gekk í hús í hverfinu til að gera íbúum viðvart.
„Þetta er er mikið tjón og maður veit ekki hvernig gengur að koma svona fyrirtæki í gang aftur. Það verður að koma í ljós. Það er verið að framleiða umbúðir fyrir matvæli og viðskiptavinir þurfa að fá vörurnar sínar. Alltaf slæmt þegar svona starfsemi stöðvar, það munar um allt,“ segir Ásta.
Hún gerir ráð fyrir að heyra í eigendum Plastiðjunnar síðar í dag og þá verður einnig farið yfir málið á bæjarráðsfundi síðar í vikunni. „Eins og við sjáum, húsið er bara ónýtt,“ segir hún. „Það var mikil mildi að það tókst að verja næstu hús, þetta hefði getað orðið meira. Það var ekki mikill vindur, það var miklu meiri vindur í fyrrakvöld,“ segir hún.