Eldurinn sem kom upp á Selfossi varð í plastverksmiðju og því er um plastreyk og eiturgufur að ræða sem fóru yfir nærliggjandi íbúðahverfi á Selfossi. Lögreglan ákvað því strax að rýma Hagahverfi. Nokkrir íbúar vildu þó vera áfram á heimilum sínum og segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi að ekki hafi verið talin þörf á að beita valdi til að fá fólk í burtu. Slökkvilið fékk tilkynningu um eldinn korter yfir tíu í kvöld.
Fólki var beint í fjöldahjálparstöð í Vallarskóla, en samkvæmt Rauða krossinum eru um 50 manns þar núna. Oddur segir að upplýsingum verði komið til fjölmiðla og fólksins þegar talið er öruggt að fólk snúi aftur til síns heima. Býst hann við því að það verði seinna í nótt.
Göturnar sem voru rýmdar voru Grashagi, Reyrhagi, Lambhagi, Laufhagi, Nauthagi, Hrúthagi og Heimahagi.
„Það er gríðarlegt eignatjón,“ segir Oddur og staðfestir að verksmiðja Plastiðjunnar sé brunnin niður. Segir hann að ekki sé vitað um slys á fólki. Ekki er vitað um uppruna eldsins að svo stöddu.
Plastiðjan er með stærri plastverksmiðjum á landinu og meðal viðskiptavina hennar eru fjölmörg matvælafyrirtæki. Ekki er vitað hvaða áhrif eldurinn mun hafa á slíka framleiðslu.
Bruni á Selfossi, staðan kl. 23:30Brunavarnir Árnessýslu telja sig hafa náð tökum á eldinum og gera sér vonir um að ná...
Posted by Lögreglan á Suðurlandi on Monday, 23 November 2015