Rýmið logaði frá gólfi upp í loft

Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri við rústirnar í morgun.
Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri við rústirnar í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

„Við fáum útkall rétt tæplega korter yfir tíu í gærkvöldi um að það sé kviknað í þessari verksmiðju. Það er alveg ljóst í okkar huga þegar við fáum svoleiðis útkall að það gæti endað sem mjög stórt útkall svo við förum að undirbúa okkur fyrir það,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjórn Brunavarna Árnesinga. Hann ræddi við mbl.is fyrir utan rústir Plastiðjunnar á Selfossi fyrir hádegi í dag.

Sterk plastlykt er við rústir Plastiðjunnar og hvítur reykur stígur upp. Starfsmenn bæjarins eru á vettvangi í og við húsið og funda fulltrúar Sjóvá nú með eigendum fyrirtækisins. Þeir virtu rústirnar fyrir sér fyrir fundinn. Ljóst er að áhugi íbúa er nokkur en töluvert umferð er um nærliggjandi götur.

Strax ljóst að húsið var gjörónýtt

Örfáum mínutum síðar var ljóst að þetta var stórtbruni og voru þá sex stöðvar boðaðar á vettvang, þ.e. frá Stokkseyri, Þorlákshöfn, Hveragerði, Reykholti, Árnesi og Selfossi. „Við skildum eftir stöðvar á Laugavatni og Flúðum til þess að taka ekki alltaf styrk úr uppsveitunum. Við erum með um það bil sjötíu manns sem komu hingað á vettvanginn,“ segir Pétur.

 „Reykur er bara gas og gas er eldfimt og það var strax ljóst að það voru mjög litlar líkur á að hægt væri að bjarga húsinu,“ segir hann og bendir að húsið hafi verið eitt hólf, einn geimur. „Við leggjum beint upp með að bjarga húsinu sem er tengt Plastiðjunni með rana því sambrunahætta var mjög mikil.“

Pétur segir mjög vel af sér vikið að tekist hafi að bjarga báðum húsunum en slökkviliðsmenn vörðu þau bæði að innan og utan. Búið var að ná tökum á eldinum að mestu leyti fyrir miðnætti í gærkvöldi. „Það fór síðan þannig að við vorum með talsvert lið hérna þar til klukkan sex í morgun. Þá afhentum við lögreglu vettvanginn en síðan þá höfum við þurft að koma fjórum sinnum að slökkva í glæðum,“ segir Pétur.

Eldurinn braust mjög hratt út

„Þegar þakið fellur niður og veggirnir falla inn þá er svæði sem við náum ekki á. Við erum búin að leggja froðu á plastið til að vinna á þessu. Við erum búin að ná að slá þetta niður en það er ákveðið svæði undir þar sem súrefni kemst að glóðinni og þá kemur eldurinn upp aftur,“ útskýrir Pétur.

Líklegt þykir að eldurinn hafi komið upp út frá rafbúnaði. „Svona gerist mjög hratt. Þetta  eru þannig efni og þegar byggingar eru svona stór brunahólf þá er fljótlega kominn eldur í allt,“ segir Pétur. „Það sem við gerum þegar okkar menn koma hefst einn handa við að opna stóru hurðirnar  og þá logar allt rýmið að innan frá gólfi og upp í loft. Það var alveg ljóst frá fyrstu stundu að þetta væri alelda.“

Sterk lykt í loftinu. „Öll lykt er eindir sem við öndum að okkur. Það er ekkert hollt að anda þessu að sér en hinsvegar lyktin af þessu mjög sterk og loftið er ekki mettað. Það er engin móða hérna í loftinu. Við ráðlögðum leikskólanum sem er næstur þessu að halda börnunum inni í dag,“ segir Pétur.

Hvítur reykur stígur enn upp úr rústum Plastiðjunnar.
Hvítur reykur stígur enn upp úr rústum Plastiðjunnar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert