Slökkvistarfi lauk í Plastiðjunni við Gagnheiði á Selfossi um tvö leytið í nótt og fengu íbúar í nágrenninu að halda til síns heima um svipað leyti, samkvæmt færslu lögreglunnar á Suðurlandi.
Fjöldahjálparstöð RKÍ í Vallarskóla var í kjölfarið lokað en íbúar í Hagahverfi á Selfossi voru þar á meðan slökkvistarf stóð yfir.
Vera kann að einhver húsanna séu mettuð af reykjarlykt og var fólk hvatt til að lofta vel út sé þess kostur.
Tilkynning um eldinn barst á ellefta tímanum í gærkvöldi og lá reykur yfir nærliggjandi íbúðabyggð. Því var gripið til þess ráðs að rýma Hagahverfið og opna fjöldahjálpastöð á vegum Rauða krossins í Vallarskóla.
Einn starfsmaður var inn í verksmiðju Plastiðjunnar þegar eldurinn kom upp. Starfsmaðurinn komst út að sjálfdáðum, lét lögreglu vita og varð ekki meint af.
Mikill eldsmatur var inni í verksmiðjunni og barðist allt tiltækt slökkvilið við eldinn. Slökkvilið frá nágrannasveitarfélögum komu fljótt á vettvang og aðstoðuðu.
Björgunarsveitir á Selfossi og í uppsveitum Árnessýslu voru kallaðar út vegna brunans. Þær rýmdu íbúðarhverfi að hluta sem reykinn lagði yfir. Einnig aðstoðuðu björgunarsveitir lögreglu og slökkvilið við verðmætabjörgun, lokanir og gæslu.
Reynt var að verja nærliggjandi hús, en fleiri fyrirtæki eru í næsta nágrenni. Plastiðjan er á svipuðum stað og röraverksmiðjan Set, en í þeirri verksmiðju hefur tvisvar kviknað, síðast fyrr á þessu ári.