Hreinsunarstarf hófst síðdegis í gær í verksmiðju Plastiðjunnar á Selfossi eftir að verksmiðjan gjöreyðilagðist í eldi í fyrrakvöld. Slökkvilið var kallað út um tíuleytið í fyrrakvöld og stóð slökkvistarf þar til í gærmorgun.
Vettvangsrannsókn stóð yfir samhliða hreinsunarstarfinu en rannsókn beinist að rafbúnaði í skemmu þar sem m.a. voru öflugar loftpressur, skv. upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi.
Saras Saras, sem var inni í verksmiðjunni þegar eldurinn kom upp, segir að skyndilega hafi ljósin slokknað. „Þegar ég fór inn í skemmuna sá ég að eldur var búinn að læsa sig í eitt hornið á veggnum og jókst mjög hratt þannig að ég hljóp út og hringdi í 112. Eldurinn varð strax mjög mikill og óx mjög hratt en sem betur fer var slökkviliðið komið á mjög skömmum tíma,“ segir Saras í umfjöllun um brunann og afleiðingar hans í Morgunblaðinu í dag.