Maður var sýknaður í Héraðsdómi Vestfjarða vegna ákæru um kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku. Viðurkenndi hann að hafa látið stúlkuna „fróa sér og haft við hana samræði, án þess að gæta nægjanlegrar varúðar um aldur stúlkunnar,“ eins og það er orðað í dómnum. Móðir stúlkunnar lét barnaverndarnefnd vita af málinu eftir að hafa séð samskipti stúlkunnar við manninn á Facebook.
Málsatvik eru þau að maðurinn og stúlkan kynntust á Facebook og óskaði stúlkan eftir því að fara á rúntinn með honum. Samþykkti hann það gegn því að hún stundaði kynlíf með honum. Þá kemur fram að samskipti þeirra gefi það til kynna að þau hafi að minnsta kosti haft kynmök tvisvar. Maðurinn er þá sagður hafa gefið stúlkunni neyðarpilluna eftir á svo hún yrði ekki ólétt. Stúlkan hefur verið greind með með þroskahömlun, athyglisbrest og erfiðleika í félagsumhverfi.
Sagðist maðurinn fyrir dómi aðeins hafa þekkt stelpuna í um hálftíma áður en hann hitti hana og ekki verið búinn að skoða aldur hennar nánar. Sagðist hann hafa „upplifað brotaþola sem venjulega 15 ára stúlku“.
Sem fyrr segir var maðurinn sýknaður, en allur sakarkostnaður var felldur á ríkið.