„Já við förum með þetta lengra“

Vilhjálmur Bjarnason formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Vilhjálmur Bjarnason formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Dómur Hæstaréttar í máli tveggja lántaka gegn Íbúðalánasjóði var mikil vonbrigði og ljóst að hann verður kærður áfram til erlends dómstóls. Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, en samtökin stóðu á bak við dómsmálið sem um ræðir.

Málið hefur verið sagt prófsteinn fyrir lögmæti verðtryggingar hér á landi, en Hæstiréttur dæmdi að hún stæði óhögguð. Vilhjálmur sagði þetta þó ekki snúast beint um lögmæti verðtryggingarinnar, heldur hvernig hún væri sett fram fyrir neytendur. „Þetta fjallaði ekki um verðtrygginguna, heldur að kynning verðtryggingarinnar fyrir almenningi hafi ekki verið rétt gerð samkvæmt neytendalánalögum og tilskipunum og innleiðingum sem við eigum að hafa gert,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is

„Dómurinn er mikil vonbrigði með íslenskt dómskerfi og Hæstarétt og að ekki sé farið eftir lögum innan dómkerfisins,“ segir Vilhjálmur og bætir við að neytendalánalögin séu skýr varðandi verðtryggð lán og ef brugðið sé þar út af megi ekki rukka fyrir lánið. „Svo er fundin Fjallabaksleið til að komast fram hjá þessu. Við teljum málið algjörlega órökstutt af dómstólum og ekki rétt,“ segir hann.

Vilhjálmur segir þetta fyrsta málið sem var höfðað á þessum forsendum, en önnur mál hafi fylgt í kjölfarið sem voru byggð á þessu máli.

Aðspurður hvort hagsmunasamtökin muni fara lengra með málið stendur ekki á svörum. „Já við förum með þetta lengra,“ segir hann og bætir við að samtökin hafi búist við þessum dómi og því verið búin að ákveða að skjóta honum áfram til erlendra dómstóla þegar hann kæmi. „Við bjuggumst við að kerfið myndi verja sig áfram fyrir þeim mistökum sem það hefur gert undanfarna áratugi.“ Hann segir nú í skoðun hvort málið verði kært til Mannréttindadómstóls Evrópu eða EFTA dómstólsins, en það verði meðal annars skoðað í því ljósi hvor leiðin sé fljótlegri.

Segir Vilhjálmur niðurstöðuna vera eftir „pöntuðu mati að því er virðist vera og hræðslu um að allt fari á versta veg ef kynning hennar verður dæmd ólögleg og að leiðrétta þurfi þetta aftur til 2001.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert