Violeta Calian, sérfræðingur á mannfjöldadeild Hagstofunnar, segir mikilvægt að setja búferlaflutninga til og frá landinu í sögulegt samhengi. Þannig skipti miklu máli að fjöldi brottfluttra umfram aðflutta sé settur í samhengi við íbúafjölda landsins. Landsmönnum hafi til dæmis fjölgað mikið síðan 1986.
Calian telur því ekki rétt að einblína á mismun þessara tveggja stærða og bera hann svo við tölur fyrri ára. Það sé tölfræðilega ekki góð aðferðafræði. Slík nálgun geti leitt til oftúlkunar á náttúrulegum sveiflum.
Sendu frá sér skýrslu
Hagstofan sendi frá sér skýrslu í dag varðandi búferlaflutninga til og frá landinu og nær rannsóknin aftur til ársins 1986. Fjallað var um málið á mbl.is í dag. Útgáfan hefur vakið athygli, en leiða má líkur að því að tilefnið sé umfjöllun í fjölmiðlum nýverið um brottflutning íslenskra ríkisborgara.
Sú umfjöllun hófst með frétt í Morgunblaðinu 11. nóvember um að rúmlega 1.100 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu frá landinu en til þess fyrstu 9 mánuði ársins. Þannig fluttu 3.120 íslenskir ríkisborgarar frá landinu, en 1.990 til landsins á tímabilinu. Þegar fréttin var unnin voru ekki tiltækar upplýsingar hjá Hagstofunni um aldursskiptingu fólksins. Það kom hins vegar fram í samtölum við starfsmann Hagstofunnar að slík samantekt kynni að verða unnin. Óskaði blaðið sérstaklega eftir slíkum gögnum og hafa þau nú verið birt.
Komu í kjölfar kreppuára
Í frétt Morgunblaðsins 11. nóvember stóð m.a.:
„Samkvæmt gagnagrunni Hagstofu Íslands hafa brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta aðeins verið marktækt fleiri í fimm skipti síðan árið 1961. Það var árin 1970, 1995 og 2009 til 2011. Það einkennir þessi ár að þau komu í kjölfar kreppuára á Íslandi.“
Nú er hins vegar uppgangur í íslensku efnahagslífi. Hefðu ekki 1.860 fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins á fyrstu níu mánuðum ársins en fluttu þá frá því væri flutningsjöfnurinn neikvæður í ár.
Árið 1970 voru brottfluttir íslenskir ríkisborgarar 1.380 fleiri en aðfluttir, árið 1977 fluttu 1.167 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess og árið 1989 voru brottfluttir 1.148 fleiri en aðfluttir. Árin 1995-96 var talan 1.637 og 1.038 í mínus og árið 2002 fluttu 1.020 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Árin 2009-11 var flutningsjöfnuðurinn neikvæður um 2.466, 1.703 og 1.311 íslenska ríkisborgara, í þessari röð. Á fyrstu 9 mánuðum þessa árs hafa svo 1.130 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess.
Til fróðleiks var íbúafjöldinn 242.203 manns hinn 1. janúar 1986 en 329.100 manns hinn 1. janúar sl. Hefur landsmönnum því fjölgað um 87 þúsund á tímabilinu.
Fylgni milli efnahagsástands og búferlaflutninga
Telur Calian, sem er sérfræðingur í tölfræði, eins og áður segir að ekki sé rétt að einblína á þessa tölfræði.
Hún segir aðspurð að fylgni sé milli búferlaflutninga og efnahagsástands á Íslandi.
„Aðflutningur íslenskra ríkisborgara aftur til Íslands eru háðir hagvexti, atvinnuleysi og fjölda útskrifaðra stúdenda, en brottflutningur íslenskra ríkisborgara fer eftir fjölda útskrifaðra stúdenta,“ segir Calian og tekur fram að báðar breytur séu með tímatöf.
Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.