Ekki er bjóðandi að Fréttablaðið upplýsi þjóðina um breytingar á vopnaburði lögreglu með brotakenndum hætti og að yfirlögregluþjónn tjái sig meira um málið þar en innanríkisráðherra á Alþingi. Þetta sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðum um störf þingsins í morgun.
Sagðist hann vera ósáttur við svör Ólafar Nordal innanríkisráðherra á Alþingi í gær en hún fékk bæði fyrirspurnir frá honum og Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um málið.
Sagði Árni Páll að hún hefði ekki svarað með hvaða hætti verið væri að breyta vopnaburði í lögreglubílum vítt og breytt um landið og hann hefði sjálfur elt hana upp á Facebook í gærkvöldi til að spyrjast fyrir um málið. Árni Páll bætti því við að ekki væri fylgni á milli fárra glæpa og vopnaburðar. Óskaði hann eftir sérstakri umræðu um breytingarnar í næstu viku þar sem það yrði skýrt til hlítar.
Fréttablaðið greindi frá því í gærmorgun að skammbyssum yrði komið fyrir í bifreiðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hingað til hafi byssurnar verið geymdar á lögreglustöðum en nú muni almennir lögreglumenn hafa aðgang að þeim í læstum hirslum í bílum embættisins, að fengnu leyfi lögreglustjóra.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is í gær að skammbyssur hafi um nokkurt skeið verið í einhverjum hluta lögreglubíla lögregluembætta landsins. Eru vopn þessi geymd í læstum vopnakössum og þurfa lögreglumenn sérstaka heimild til þess að nálgast þau. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinni nú að því að koma sama búnaði fyrir í nokkrum af bifreiðum embættisins.
Frétt mbl.is: Mikilvægt að fylgjast með lögreglunni
Frétt mbl.is: Ekki vopnuð við dagleg störf