Fjárlaganefnd sýnir skilningsleysi

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli

„Framkoma forystu fjárlaganefndar og skilningsleysið á þörfum þeirrar grunnþjónustu fyrir almenning sem sjúkrahúsið veitir olli mér vonbrigðum. Vonbrigðum í ljósi mikilvægis og umfangs málaflokksins og þess skýra vilja þjóðarinnar sem kemur fram í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun; að forgangsraða eigi í þágu heilbrigðisþjónustunnar umfram annað.“

Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, í nýbirtum forstjórapistli sínum, en innblástur skrifanna er hinn mikli fjárskortur sem spítalinn hefur staðið fyrir undanfarin ár og komandi önnur umræða fjárlaga næsta árs.

„Rekstur Landspítala er umfangsmikill, kostnaðarsamur og flókinn. Því ríður á að umfjöllun um hann sé vönduð og byggð á bestu þekkingu, yfirvegun og yfirsýn yfir heilbrigðisþjónustuna alla. Vandi Landspítala og raunar heilbrigðiskerfisins alls liggur í því að vanfjármögnun til áratuga bitnar illa á starfseminni og verður ekki bætt í einu vetfangi. Eins og margtuggið hefur verið tók Landspítali verulega á í rekstrinum í kjölfar efnahagshrunsins og þið finnið öll fyrir því, þótt gefið hafi verið í síðustu tvö árin. Enn er talsvert í land til að við náum fyrri stöðu,“ segir Páll í pistli sínum og bætir við að miður gaman sé að biðja Alþingi um fjármuni ár eftir ár.

„Landspítali hefur sannarlega stokkað upp í starfseminni oftar en einu sinni, innleitt viðurkennda verkferla við endurskoðun dreifingar fjármagns og beitt aðhaldi umfram marga aðra í rekstri ríkisins. Í raun er um (sí)endurtekið efni að ræða.

Í fyrsta lagi er uppsöfnuð viðhaldsþörf húsnæðis mikil og þótt spítalanum séu ætlaðar 600 mkr á ári í viðhaldsframkvæmdir, þá er það allt of lítið fé þegar litið er til þess að Landspítali er í hundrað og þrjátíu þúsund fermetrum í 100 húsum. 

Þá trufla kerfislæg vandamál okkur mikið. Vegna löngu fyrirsjáanlegra breytinga á samsetningu þjóðarinnar eykst álag á spítalann mjög ár frá ári. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir auknu álagi í fjárlögum svo spítalinn fær í raun á sig 1,7% sparnaðarkröfu á ári (meðalálagsaukning per ár frá 2010) og allt það fé sem við fáum inn byrjar í rauninni á að mæta því aukna álagi. Þannig er orðinn hér spírall undirfjármögnunar sem erfitt er að vinda ofan af nema menn horfist í augu við staðreyndir. Aukið fé til að efla heilsugæslu og hjúkrun aldraðra mun vonandi hjálpa við að létta á, en það mun ekki leysa þann vanda sem felst í gölluðu fjármögnunarmódeli.

<br/>

Í þriðja lagi er það einnig kerfislægt vandamál að launabætur eru vanáætlaðar af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem er gömul saga og ný. Kostnaðurinn verður ekki minni þótt maður áætli hann lægri. 

Í morgun var ég ásamt framkvæmdastjóra fjármálasviðs boðaður á fund fjárlaganefndar Alþingis til að veita upplýsingar um áhyggjur okkar og mat á stöðu mála. Þar útskýrðum við það, að þrátt fyrir þá fjármuni sem til spítalans hafa runnið síðustu tvö árin og við metum mikils, þá er staðreyndin sú að enn vantar töluvert upp á að fjármögnun spítalans sé í samræmi við verkefni. Framkoma forystu fjárlaganefndar og skilningsleysið á þörfum þeirrar grunnþjónustu fyrir almenning sem sjúkrahúsið veitir olli mér vonbrigðum. Vonbrigðum í ljósi mikilvægis og umfangs málaflokksins og þess skýra vilja þjóðarinnar sem kemur fram í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun; að forgangsraða eigi í þágu heilbrigðisþjónustunnar umfram annað.“

<a href="http://www.landspitali.is/um-landspitala/stofnunin/skipulag/stjornendur/forstjori/forstjorapistlar/frett/2015/11/27/Forstjorapistill-Kalla-eftir-raunhaefum-aaetlunum-/" target="_blank">Hér má sjá pistilinn í heild sinni.</a>

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka