Hatrammari árás en áður

Stjórnarráð Íslands í Lækjargötu.
Stjórnarráð Íslands í Lækjargötu. mbl.is/Ómar

Árásir á vefi stjórnarráðsins hófust í gær upp úr klukkan 21 og héldu áfram í nótt. Tekin var ákvörðun um að taka vefina niður alfarið, en árásin í nótt var hatrammari en áður þegar oft dugar að loka fyrir erlenda umferð. Þetta segir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, við mbl.is.

Engin gögn í hættu

Samkvæmt því voru vefirnir niðri í allt að 14 klukkustundir, en þeir voru opnaðir aftur um klukkan 11 í dag. Segir Sigurður að nú virðist árásin vera yfirstaðin og því sé vefurinn aftur kominn í loftið.

Sigurður segir að tilgangur árásarinnar hafi fyrst og fremst verið að valda usla, en engin gögn hafi verið í hættu vegna hennar.

Á síðu sem sett var upp vegna árásarinnar kemur fram að árásin sé vegna hvalveiða Íslendinga, en þar er meðal annars að finna upplýsingar um tölvupóst Alþingismanna og samantekt á tístum fjölda einstaklinga, bæði Íslendinga og erlendra aðila um hvalveiðar og áskorun á stjórnvöld hér á landi að hætta veiðar á langreyði.

Frétt mbl.is: Anonymous ræðst á stjórnarráðið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert