Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, ætlar ekki að biðjast afsökunar á ummælum sem hún lét falla um Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, á sunnudag.
Þar sakaði hún Pál um að hafa beitt sig andlegu ofbeldi en í pistli hans á föstudag lýsti hann yfir vonbrigðum sínum með vinnu fjárlaganefndar.
„Að sjálfsögðu ekki. Ég ætla ekki að fara niður á þetta plan sem þetta fólk er á,“ segir Vigdís.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu ummæli Vigdísar harðlega í gær og hvöttu hana til þess að biðjast afsökunar á þeim.
Aðspurð segir Vigdís að Einar Kr. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hafi ekki kalllað hana á sinn fund eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar kölluðu eftir. „Auðvitað ekki, enda hefur hann ekki umboð til þess,“ segir hún.
Einar vildi ekkert tjá sig um málið þegar blaðamaður hafði samband við hann.