Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson, fyrrum stjórnendur hjá Kaupþingi og ákærðu í Chesterfield-málinu svokallaða, fá aðgang að tölvupóstum tveggja viðskiptastjóra bankans, en Hæstiréttur vísaði málinu frá og stendur því dómur héraðsdóms sem áður hafði heimilað að þeir fengju aðgang að póstunum.
Þrímenningarnir eru ákærðir fyrir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Management Group S.A. og eignarhaldsfélaga þeirra, samanlagt 510 milljónir evra haustið 2008. Það jafngilti nærri 70 milljörðum króna miðað við gengi evru 7. október 2008. Sérstakur saksóknari telur að féð sé allt tapað Kaupþingi.
Í dómi héraðsdóms sagði að hagsmunir ákærðu til að njóta réttlátrar málsmeðferðar væru yfir hagsmuni þriðja manns hafnir.
„Um tölvupósta viðskiptastjóranna tveggja, sbr. 3. tl. í kröfugerð ákærðu álítur dómurinn að gegni öðru máli, að þeir séu svo skilgreindir að þeir hljóti að teljast gögn máls í skilningi ákvæðisins. Enda þótt gera verði ráð fyrir því að tölvupóstar þessir varði að einhverju leyti fjárhags- eða einkamálefni annarra en ákærðu, geta hagsmunir sakbornings til þess að njóta réttlátrar málsmeðferðar ekki skilyrðislaust átt að víkja fyrir slíkum hagsmunum annarra. Er á það að líta í þessu sambandi að þess er ekki krafist að póstarnir verði afhentir ákærðu eða verjendum þeirra heldur einungis að þeim skuli veittur aðgangur að þeim. Verður að telja að hagsmunir ákærðu til þess að kynna sér gögnin og meta hvort þau hafa þýðingu fyrir málsvörnina vegi hér þyngra en þessir hagsmunir þriðja manns,“ segir í dómi héraðsdóms.
Aðalmeðferð málsins átti að hefjast í héraði á morgun, en var frestað um einn dag vegna dómsins í dag. Aðalmeðferð mun því hefjast á föstudaginn.