Innanflokksátök hjálpa ekki

Líf Magneudóttir og Sóley Tómasdóttir.
Líf Magneudóttir og Sóley Tómasdóttir. mbl.is/Rósa Braga

Sóley Tómasdóttir tók sæti Lífar Magneudóttur sem formanns og fulltrúa Vinstri grænna í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar í gær. Líf vill ekki tjá sig um ákvörðunina en í Facebook-færslu segir hún innanflokksátök um persónur ekki hjálpa flokknum. Efla þurfi tengsl hópsins og grasrót flokksins.

Sex borgarfulltrúar sátu hjá þegar atkvæði voru greidd um tillögu þess efnis að Sóley Tómasdóttir tæki sæti Lífar Magneudóttur sem formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar á fundi borgarstjórnar í gær. Tillagan var samþykkt með atkvæðum níu borgarfulltrúa.

Engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna mannaskiptin urðu. Í færslu sinni á Facebook vísar Líf á Sóleyju um svör við því. Núna skipti mestu fyrir liðsmenn VG að horfa fram á veginn og standa saman um að vinna að málum í borginni og hafa áhrif til góðs fyrir íbúa og umhverfi. Innanflokksátök um persónur hjálpi ekki við það.

„Ef það má draga lærdóm af þessu þá er hann sá að það þurfi að bæta ákvarðanatökuferlið í borgarstjórnarhópnum og efla tengsl hópsins og grasrótarinnar í flokknum. Það er verkefni okkar allra og ég mun leggja mitt af mörkum í þeirri vinnu og treysti því að aðrir í borgarstjórnarhópnum geri slíkt hið sama,“ skrifar Líf meðal annars.

Borgarfulltrúarnir Halldór Auðar Svansson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlís Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Jóna Björg Sætran sátu hjá þegar atkvæði voru greidd um tillöguna um að Sóley tæki sæti Lífar.

Kæru vinir.Síðasta sólarhringinn hefur verið fjallað mikið um skipan Sóleyjar Tómasdóttur sem formanns mannréttindaráðs...

Posted by Líf Magneudóttir on Wednesday, 2 December 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert