Spyrja um byssur í lögreglubílum

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hverjar þurfa aðstæður að vera til að uppfyllt séu skilyrði um að lögreglu sé heimilt að grípa til skotvopna sem ákveðið hefur verið að verði tiltæk í lögreglubifreiðum?“ spyr Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í skriflegri fyrirspurn til Ólafar Nordal innanríkisráðherra.

Katrín spyr einnig að því hver meti þessar aðstæður og heimilar eða hafnar notkun skotvopna og hvernig samskipta- og verklagsreglum í þeim efnum sé háttað. „Hversu mörg tilfelli hafa komið upp í störfum lögreglu undanfarin tíu ár sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna og hvernig lýsa þau sér?“ spyr hún ennfremur og áfram: „Hvernig verður háttað eftirliti með skotvopnanotkun lögreglu og þeim atvikum sem verða á vettvangi þar sem skotvopnum er beitt?“

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, hefur einnig lagt fram skriflega fyrirspurn til Ólafar í þessum efnum. Þar spyr hún meðal annars að því á hvaða rannsóknum eða þarfagreiningum ákvörðun um „að koma vopnabúri fyrir í lögreglubifreiðum“ byggist og hvar þær séu aðgengilegar. Hún spyr einnig að því hverrar gerðar ig stærðar þau skotvopn séu sem komið verði fyrir í lögreglubifreiðunum og hversu margar bifreiðar verði útbúnar með þeim hætti, hvar þær verði staðsettar á landinu og hver kostnaðurinn við þetta verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka