Stofnun múslima á Íslandi birti í gær opið bréf til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Facebook síðu sinni.
Bréfið er svar við ummælum forseta um öfgatrú í samhengi við fjárstyrk Sádi Arabíu við íslam á Íslandi en eins og mbl.is hefur greint frá var það einmitt stofnun múslima sem hlaut styrkinn.
Í bréfinu er vísað í stofnskrá stofnunarinnar þar sem segir að hún lúti íslenskum lögum og sé stjórnmálalega og efnahagslega sjálfstæð og að þó svo að hún taki við framlögum og gjöfum frá einstaklingum og stofnunum innan og utan Íslands taki hún ekki við skilyrtum gjöfum. Markmið stofnunarinnar séu m.a. að kynna íslenskt samfélag og lög þess fyrir samfélagi múslima, greiða fyrir gagnkvæmri virðingu meðal þegna þjóðfélagsins, boða jafnrétti og berjast gegn ofbeldi, kynþáttahatri og hryðjuverkum.
„Óneitanlega er óheppilegt að forseti Íslands skuli með beinum hætti gera íslam tortryggilegt sem og stuðning Sádi-Araba við múslíma á Íslandi. Það er varla nýmæli að erlendir aðilar styrki og styðji trúfélög hér á landi. Hafa virkilega engin skráð trúfélög á Íslandi þegið gjafir eða styrki að utan? Og hafa lútherskar kirkjur Íslendinga úti í heimi aldrei fengið stuðning að heiman?“ er spurt í bréfinu.
„Ein af fimm meginstoðum íslams eru gjafir til þeirra er minna mega sín, oft í gegnum moskur. Slík er gjöfin frá Sádi-Arabíu og henni fylgdu engin skilyrði. Þegar sendiherrann nefndi það á fundi með þér að hann vildi styrkja múslíma á Íslandi gerði hann það væntanlega til að sýna velvild sína til lands og þjóðar en ekki til að árétta að ríki hans ætli að vera með afskipti af trúarlífi Íslendinga, hvað þá að hann ætlaði með því móti ala upp unga karlmenn í öfgakenningum sem leiði til heilags stríðs við evrópskt samfélag mannréttinda, umburðarlyndis og frelsis.“
Stofnunin bendir á að um sama leyti og forsetinn viðraði áhyggjur sínar bárust fréttir af Reykvískri konu sem neiti að leigja múslimum húsnæði sem auk þess sem skemmdarverk voru unnin á Ýmishúsnæðinu í Skógarhlíð. Bent er á ódæðisverk hægri öfgamannsins Anders Behring Breivik í Noregi og nýlega skotárás á heilsugæslustöð Planned Parenthood í Colorado þar sem þrír létust og níu særðust. Veltir stofnunin því upp hvort kristin trú árásarmannsins í Colorado hafi leitt hann til voðaverkanna og bendir á að nokkrir kristnir trúbræður hans hafi beinlínis fagnað þeim. Sömuleiðis er bent að helsta tilefni hryðjuverkanna í Noregi hafi verið andstæða Breivik við fjölmenningarstefnu. Spyr stofnunin forsetann hvort ástæða sé til að vara við áhyggjum af íslam og múslimum.
„Þú gekkst svo langt að segja vandann sem fylgir öfgafullri íslamstrú þann mesta frá tímum nasista og sagðir að „sá vandi verð[i] ekki leystur með barnalegri einfeldni og einhverjum aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra úrbóta“. En er það ekki einmitt barnaleg einfeldni og hættuleg að spyrða saman íslam, trúarbrögð[um] eins og hálfs milljarðs manna, og nasisma? Er þjóðernisremba og ótti Breivik við aðskotamenn með framandi trú ekki nærtækari samlíking? Voru hryðjuverk írska lýðveldishersins á sínum tíma til marks um hættuna af rómversk-kaþólskri trú og var sprengjum hans komið fyrir í „heilögu stríði við evrópskt samfélag, samfélag lýðræðis, mannréttinda, umburðarlyndis og frelsis“? Leggjum af barnaskapinn, aukum skilning, víðsýni og umburðarlyndi. Á það hefur þú lagt áherslu á Samráðsvettvangi trúfélaga á Íslandi og vonandi stendur þú enn við það.“
Bréfið má lesa í heild sinni á Facebook.