Dómar í BK-44 máli mildaðir í Hæstarétti

Hæstiréttur kvað upp sinn dóm í BK-44 málinu í dag. …
Hæstiréttur kvað upp sinn dóm í BK-44 málinu í dag. Tveir voru dæmdir í fjögurra ára fangelsi, einn í þrjú ár og einn hlaut tveggja ára dóm.

Hæstiréttur mildaði dóm héraðsdóms í svokölluðu BK-44 máli. Birkir Krist­ins­son og Elmar Svavars­son voru dæmdir í fjögurra ára fangelsi, en þeir hlutu fimm ára dóm hvor í héraðsdómi. Dómur yfir Jó­hann­esi Bald­urs­syni var mildaður úr fimm árum í þrjú ár og þá var dómur yfir Magnúsi Arn­ari Arn­gríms­syni mildaður úr fjórum árum í tvö ár.

Fimm hæstaréttardómar dæmdu í málinu, eða þeir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. Ólafur Börku skilaði sératkvæði, en hann vildi vísa málinu frá héraðsdómi hvað varðar Birki og fella málskostnað á ríkissjóð.

Þá voru fjórmenningarnir dæmdir til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, eða hver fyrir sig 4.340.000 krónur.

Eiga sér engar málsbætur

Í niðurstöðu Hæstaréttir segir, að við ákvörðun refsingar sé til þess að líta að Jóhannes og Magnús hafi á þeim tíma er brotin voru framin verið meðal æðstu stjórnenda í stórum viðskiptabanka sem jafnframt var almenningshlutafélag. Elmar hafi verið verðbréfamiðlari en þó í aðstöðu til að hrinda í framkvæmd viðskiptunum sem málið varðar. Birkir hafi í senn veirð starfsmaður Glitnis banka hf. og einkaeigandi BK-44 ehf. og notið þeirrar stöðu í viðskiptum félagsins að vera bæði í starfslegum og persónulegum tengslum við þá menn sem komu þar fram af hálfu bankans.

„Til þessara viðskipta gekk ákærði Birkir í því skyni að njóta af þeim fjárhagslegs ávinnings svo sem reyndin varð að nokkru. Brot ákærðu Elmars, Jóhannesar og Birkis gegn lögum nr. 108/2007 voru stórfelld og beindust bæði að þeim sem áttu í viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði og öllum almenningi. Háttsemi allra ákærðu varðaði gríðarlegar fjárhæðir og varð Glitnir banki hf. fyrir stórfelldu tjóni af gerðum þeirra. Þá var brot ákærða Birkis samkvæmt VI. kafla ákærunnar stórfellt. Eiga ákærðu sér engar málsbætur, en þáttur þeirra í brotunum var á hinn bóginn misjafn,“ segir í dómi Hæstaréttar

Hlutu þyngri dóma í héraði

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi í júní í fyrra þá Birki, Elm­ar og Jó­hann­es í fimm ára óskil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir aðild sína að málinu. Þá var Magnús dæmd­ur í fjög­urra ára fang­elsi. 

Í mál­inu voru þeir fjórir ákærðir fyr­ir umboðssvik, markaðsmis­notk­un og brot á lög­um um árs­reikn­inga. Menn­irn­ir eru Birk­ir Krist­ins­son, sem var starfsmaður einka­bankaþjón­ustu Glitn­is, Jó­hann­es Bald­urs­son, sem var fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta, Elm­ar Svavars­son, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arn­ar Arn­gríms­son, sem var fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs.

Ákær­an kom til vegna 3,8 millj­arða lán­veit­ingu bank­ans til fé­lags­ins BK-44 í nóv­em­ber 2007. Fé­lagið var í eigu Birk­is og voru Jó­hann­es, Magnús og Elm­ar ákærðir fyr­ir umboðssvik með því að veita fé­lag­inu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Birk­ir var svo ákærður fyr­ir hlut­deild í brot­inu. BK-44 seldi hlut­ina á ár­inu 2008 þegar gert var upp við fé­lagið nam tap Glitn­is tveim­ur millj­örðum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert