Nokkur þeirra 34 sýrlensku barna og unglinga sem væntanleg eru til Íslands frá Líbanon á næstu vikum hafa neyðst til að vinna mjög mikið. Vinna barna í landinu er fylgifiskur ört vaxandi skuldavanda flóttafólksins sem stafar af því að það fær ekki atvinnuleyfi og fjárhagsaðstoð stofnana og samtaka hefur verið skert verulega síðustu misseri.
„Satt best að segja fer ástandið sífellt versnandi,“ segir Violet Warnery, aðgerðastjóri UNICEF á vettvangi í Líbanon, um aðstæður sýrlensku flóttamannanna. „Þetta er lífsbarátta, sá hæfasti lifir af. Þegar þau komu fyrst hingað til Líbanons áttu þau mörg hver sparifé. Voru með von í hjarta. Gátu unnið. Þau höfðu tækifæri. Það er búið að taka þetta allt frá þeim.“
„Ég er ekki lengur manneskja, ég er númer,“ segir Jamal, 12 ára, við blaðamann mbl.is sem kynnti sér aðstæður flóttafólksins í Líbanon í síðustu viku. Jamal býr í tjaldi í Bekaa-dalnum, vistarveru sem vart er hægt að kalla heimili.
Líbanon hefur tekið við 1,1 milljón sýrlenskra flóttamanna á 5 árum. 55 þeirra hafa nú þegið boð um að koma til Íslands fyrir jól og setjast hér að. Þar með verður flótta þeirra loks lokið.
Ítarlega er fjallað um aðbúnað flóttafólksins í Líbanon í Morgunblaðinu í dag sem dreift er inn á hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu.