„Höfum aldrei lent í þessu áður“

Yfirlæknir deildarinnar segir að vatnsfötur séu út um allt hús. …
Yfirlæknir deildarinnar segir að vatnsfötur séu út um allt hús. Leki hafi fundist á um 10-15 stöðum í húsinu. Þrjú starfsmannaherbergi eru ónothæf. mbl.is/Eggert

Starfsfólk og sjúklingar á Grensásdeild Landspítalans hafa þurft að glíma við heilmikinn vatnsleka í húsnæðinu í dag. Yfirlæknir deildarinnar segir að menn hafi orðið við leka á um 10-15 stöðum í húsinu - mest á efstu hæð en einnig á neðri hæðum. „Þetta eru ansi margar fötur hér í notkun,“ segir Stefán Yngvason, yfirlæknir á Grensásdeild Landspítalans, í samtali við mbl.is.

„Það er búið að vera vinna í því að taka snjó af þakinu og við erum að reyna að losa rennurnar sem eru alveg fullar af klaka,“ segir Stefán. Þetta leiði til þess að vatnið í rennunum leiti annað. „Það virðist fara undir járnið og upp á pappann og seytlar þar inn í gegn. Og það fer hér og þar inn í húsið,“ segir hann ennfremur.

Athuga með tjón síðar í dag

Aðspurður segir hann ekki liggja fyrir hversu mikið tjón hafi orðið, en menn urðu fyrst varir við lekann í gær. Síðan hafi þetta farið vaxandi. Nú einblíni menn á að tryggja það að vatnið komist sína leið, þ.e. renni af þakinu og niður rennurnar. Seinni partinn í dag verði farið upp á háaloft til að meta aðstæður. 

Verktakar komu á staðinn í morgun með kranabifreið og hafa unnið að því að losa snjóinn og hreinsa rennurnar. „Það þarf græjur í þetta, það er ekki hægt að gera þetta öðruvísi. Húsið er þrjár hæðir,“ segir Stefán. Húsið er með svokölluðu valmaþaki sem hallar til beggja átta.

mbl.is/Eggert

Þrjú starfsmannaherbergi ónothæf

„Við höfum aldrei lent í þessu áður, en þetta er líka óvenjulegt snjófergi,“ segir Stefán. Það sé ekki til að bæta ástandið þegar það skiptist á þíða og frost á hverjum degi. Það geri það að verkum að það frjósi hratt í rennunum með þessum afleiðingum. 

„Það eru fötur hér um allt hús, þannig að það truflar aðeins umferðina um stigana. Fólk hefur  notað lyftur meira,“ segir Stefán. Hann bætir við að þrjú starfsmannaherbergi hafi verið ónothæf vegna leka. Aðeins hafi lekið inn á einum stað á efstu hæðinni þar sem sjúklingar sofi.

Fólk hefur notað stigana í mun minna mæli en á …
Fólk hefur notað stigana í mun minna mæli en á venjulegum degi, enda dropar töluvert úr lofti á stigagöngum. mbl.is/Eggert

Ótrúlega mikið til af fötum

„Þetta er bras maður, fyrir utan hálkuna og öllu sem því tilheyrir - ófærðinni. En við reynum að halda uppi góðum móral, það þýðir ekkert annað.“ 

Spurður hvort menn eigi nægilega mikið af fötum til að taka við öllu vatninu segir Stefán hlæjandi: „Það virðist vera alveg ótrúlega mikið til. Ég veit ekki af hverju, satt að segja. Það er góður húsvörður sem lumar á ýmsu hérna.“

Mikill vatnsleki á Grensásdeild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert