Þoka liggur yfir Bekaa-dalnum í Líbanon fram eftir morgni. Þegar léttir til koma fjöll í ljós í fjarska. Þá horfa þúsundir flóttamanna í dalnum dreymnar til heimalandsins, Sýrlands, og minningarnar hrannast upp. Sumt vilja þeir muna, öðru gleyma. Flestir þrá þó ekkert heitar en að geta snúið aftur. En það verður ekki í bráð. Stríðið geisar enn og árunum í Líbanon fjölgar.
„Ég man vel eftir Sýrlandi, öllu þar. Frændi minn bjó við hliðina á mér. Hann passaði mig og við lékum okkur saman. Ég hugsa oft um Sýrland. Og ég vildi óska þess að ég gæti farið þangað aftur,“ segir Walid, átta ára, og augnaráðið verður fjarrænt um stund. Nú gengur hann í skóla í Líbanon. Hans stærsti draumur er að eignast reiðhjól. „Ég ætla mér að ná langt,“ segir hann ákveðinn um önnur framtíðarplön. „Því ég ætla að útvega mömmu minni allt sem hún þarfnast.“
Frétt mbl.is: Flóttabörnin hafa neyðst til að vinna
Í Sýrlandi bjó Walid í fallegu húsi, með fallegum garði. Síðan eru liðin nokkur ár og nú býr hann ásamt foreldrum sínum, bróður og systur, í litlu tjaldi í Bekaa-dalnum. Á sumrin er hitinn steikjandi og þá verður óbærilega heitt í tjöldunum. Á veturna er ískalt, það getur rignt mikið og þá flæðir inn í tjöldin. Moldargöturnar á milli tjaldanna breytast í forarsvað á augabragði. Síðasti vetur var óvenjuharður. Þá voru dæmi um að börn frysu í hel.
„Nú er veturinn að koma. Hann verður erfiður,“ segir Shama sem átti gott líf í Sýrlandi þar til fyrir þremur árum er hún flúði ásamt eiginmanni og tveimur börnum. Amena er í sömu sporum. Hún hefur einnig verið í Líbanon í þrjú ár með börnunum sínum. Hún kvíðir vetrinum. „Veturnir eru slæmir, mjög slæmir. Vatnið kemur inn af götunni inn í tjaldið, heimili mitt. Nú erum við að gera varnargarð svo að vatnið komist ekki inn í vetur. Og það verður svo kalt,“ segir hún og stynur þungan. Til að ylja sér kveikir fólkið á olíuofnum eða upp í eldstæðunum. Það hefur komið fyrir að eldur hafi læst sig í tjalddúkinn og heilu fjölskyldurnar brunnið inni.
Líbanir hafa verið einstaklega gestrisnir þegar kemur að flóttafólki frá Sýrlandi og smám saman veitt því aðgengi að lágmarks heilsugæslu og skólum. En innviðir þessa litla lands voru veikir fyrir og hafa nú veikst enn frekar. Að þolmörkum er komið að ýmsu leyti hjá þessari 4,4 milljóna manna þjóð, sérstaklega í ljósi þess að nú blasir við sú ískalda staðreynd að flóttamennirnir munu ekki eiga þess kost að fara heim í náinni framtíð.
Í Líbanon eru engar flóttamannabúðir fyrir sýrlenskt flóttafólk þrátt fyrir að um 1,1 milljón Sýrlendinga hafi flúið þangað síðan stríðið braust út fyrir fimm árum. Hluti flóttafólksins, þeirra á meðal Shama og Amena, býr í óformlegum flóttamannabyggðum, þar sem nokkrum tjöldum er komið fyrir í hnapp á litlum landskikum. Allir þurfa að borga landeigendum leigu. Sumir þeirra níðast á flóttafólkinu, láta það vinna, jafnvel börnin, og greiða háa leigu, allt upp í 200 dollara eða tæplega 30 þúsund krónur á mánuði. Almennt fer leiguverðið hækkandi og fólkið safnar miklum skuldum.
Flestir Sýrlendinganna í Líbanon búa svo við annan kost, s.s. í hálfbyggðum húsum, bílskúrum, vöruskemmum eða fá að halla höfði á gólfi verslana sem þeir vinna í til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Flóttamennirnir mega hins vegar ekki vinna, það er ólöglegt. Skuldafen margra er orðið svo djúpt að örvænting hefur gripið um sig síðustu mánuði. Þá er flótti til Evrópu oft eina leiðin.
„Við viljum fara til Evrópu þar sem við getum átt von um betra líf. Hér höfum við ekki efni á brauði. Við viljum fá að lifa, geta borðað og notið þess að vera til,“ segir Haya sem býr ásamt 10 ættingjum sínum í litlu tjaldi sem veggfóðrað er með auglýsingaplakötum. Þau hafa ekki lengur efni á leigunni, 90 dollurum á mánuði. „Ég vinn á hvítlauksakrinum,“ segir gamla konan á meðan ömmubarnið hennar, Sabeen, skottast í kringum hana. „Hvernig annars gæti ég lifað ef ég hefði enga vinnu?“
Um 90% allra sýrlenskra flóttamanna í Líbanon eru nú komnir í töluverðar eða miklar skuldir og hafa þær aukist að meðaltali um 22% það sem af er ári. Þeir skulda m.a. leigu, verslunareigendum fyrir matvörur og hafa þurft að fá lánaða peninga hjá nágrönnum og ættingjum fyrir helstu nauðsynjum. 70% þeirra eru nú undir fátæktarmörkum. Þeir hafa engan veginn í sig og á.
„Satt best að segja fer ástandið sífellt versnandi,“ segir Violet Warnery, aðgerðastjóri UNICEF á vettvangi í Líbanon. „Þetta er lífsbarátta, sá hæfasti lifir af. Þegar þau komu hingað fyrst þá áttu þau mörg sparifé. Voru með von í hjarta. Gátu unnið. Þau höfðu tækifæri. Það er búið að taka þetta allt frá þeim.“
Nú er spariféð á þrotum. Þeim er nær öllum stranglega bannað að vinna og styrkir frá hjálparstofnunum hafa lækkað. Aðeins þeir sem eru í sárri neyð fá nú vasapening mánaðarlega frá World Food Program. Í fyrstu fengu 900 þúsund flóttamenn þá aðstoð, nú aðeins 600 þúsund. Og upphæðin hefur lækkað úr 30 dollurum í 21 á hvern fjölskyldumeðlim. En það lifir enginn á 2.700 krónum á mánuði í landi þar sem brauð kostar 130 krónur að meðaltali á mörkuðum og mjólkurlítrinn um 260 kr.
Því hafa margir orðið að grípa til þess örþrifaráðs að láta börnin sín vinna, vægar er tekið á slíku ef upp kemst en fullorðnum sem stunda svarta vinnu. Dæmi eru um að 5 ára börn vinni fyrir fjölskyldunni og að þeim séu greiddir 3-4 dollarar, 400-500 krónur, fyrir fullan vinnudag. Börnin vinna á ökrum, á veitingahúsum í borgunum eða selja blóm og fleira á götunum. Sum neyðast til að betla. Og börnin sem þurfa að vinna ganga ekki skóla. Nú hafa dyr almenningsskóla í Líbanon verið opnaðar fyrir börnunum frá Sýrlandi og um 200 þúsund þeirra eru skráð í nám í vetur af um 400 þúsund sem eru í landinu og á skólaaldri. „En þar sem börnin þurfa mörg að vinna höfum við fundið fyrir ákveðnu bakslagi,“ segir Violet en eitt meginverkefni UNICEF og Flóttamannastofnunar hefur verið að ná samkomulagi við stjórnvöld um að opna skólana fyrir flóttabörnunum. Í fyrra þurftu um 6.000 sýrlenskar fjölskyldur að taka börnin sín úr skóla vegna vinnu.
„Það er ákveðinn hópur þessara barna sem mun aldrei aftur snúa í skóla,“ segir Tanya Chapuisat, yfirmaður UNICEF í Líbanon. „Ástandið hér hefur breyst mikið á stuttum tíma. Þau eru föst í grimmilegum vítahring skulda. Þetta veldur þeim áhyggjum og það er lítil von til staðar. Þau eru viðkvæmari nú en fyrir ári og þau eru svartsýnni.“
Eitt af því sem UNICEF er að gera til að bregðast við skertri skólagöngu barna er að bjóða upp á fjölbreyttara nám, m.a. starfsnám í landbúnaði og byggingariðnaði. Þá hefur verið rætt um að styrkja fjölskyldur fjárhagslega og láta þær skuldbinda sig til að láta börnin ganga í skóla. Einnig er vonast til þess að líbönsk stjórnvöld fari að veita Sýrlendingunum atvinnuleyfi, líkt og þau tyrknesku og jórdönsku hafa þegar gert.
„Þegar ég verð stór langar mig að verða píanóleikari,“ segir Rola, tíu ára, sem hefur búið í tjaldi í Bekaa-dalnum í 9 mánuði og byrjaði í skóla fyrir skömmu. Hún flúði Sýrland með móður sinni og bræðrum eftir að húsið þeirra var sprengt í loft upp. Faðir hennar lést í sprengjuárás. Áður en hún kom til Líbanons hafði skólagangan verið stopul vegna stríðsins. Hún saknar skólans í heimalandinu líkt og annarra hversdagslegra þátta. „Ég sakna þess hvernig lífið var, þegar við hittumst öll og gerðum eitthvað skemmtilegt. Fórum í sparifötin og nutum lífsins.“
Jamal Al Hassani, 12 ára, saknar einnig skólans síns í Sýrlandi. Það er eitt og hálft ár síðan hann flúði með fjölskyldunni undan stríðinu. Nú er hann í skóla í Líbanon þar sem flest er framandi, meira að segja stundaskráin. Hann langar að verða barnalæknir. „Mér fannst ég búa í himnaríki,“ segir hann um heimalandið og andlitið bókstaflega lýsist upp við minninguna sem kviknar. „Ég sakna vina minna og skólans míns. Og ég vona að ég komist aftur til Sýrlands.“
Jamal og Rola eiga það sameiginlegt að eiga minningar frá Sýrlandi. Flestar flóttafjölskyldurnar hafa verið í Líbanon í 3-5 ár. Mörg barnanna voru þá kornung og þekkja því ekkert annað en líf á flótta.
Þúsundir barna hafa svo fæðst í Líbanon og í raun hefur orðið sprenging í fæðingum síðustu misseri. Aðstæður þessara barna eru sérstaklega viðkvæmar því þau fá yfirleitt ekki fæðingarvottorð og eru því ríkisfangslaus. Slíkt getur haft mikil áhrif á framtíð þeirra.
„Flóttafólkið hér í Líbanon á hvergi heima,“ segir Violet hjá UNICEF. „Í því felst vandinn. Þau vilja fara aftur til Sýrlands, en það er auðvitað ekki hægt. Þau vilja fara til Evrópu, en hafa ekki efni á því. Þau eru því í mikilli klemmu.“
En það er ekki öll von úti. Tugir hjálparsamtaka starfa með flóttafólkinu í Líbanon og Rauði krossinn, UNICEF og Flóttamannastofnun leggja þeim m.a. lið í sinni erfiðu lífsbaráttu, veita þeim sálrænan og fjárhagslegan stuðning, þó að styrktarfé sé engan veginn nægjanlegt. Í ár hafa 19.165 sýrlenskir flóttamenn í Líbanon fengið hæli í öðrum löndum.
55 þeirra munu koma til Íslands rétt fyrir jól. Þar með verður flótta þeirra loks lokið.