„Ég sakna reiðhjólsins míns,“ segir Jamal, 12 ára feiminn strákur. Bróðir hans kenndi honum að hjóla í Sýrlandi. En hjólið varð eftir heima þegar þeir flúðu til Líbanons. Nú í desember munu 34 sýrlensk börn og unglingar flytja til Íslands frá Líbanon. Þau koma úr svipuðum aðstæðum og Jamal. Blaðamaður mbl.is kynnti sér aðstæður flóttafólks í Líbanon í síðustu viku.
Frétt mbl.is: Flóttabörnin hafa neyðst til að vinna
Jamal er í hópi þeirra 100 barna sem koma nær daglega í barnvænar tjaldbúðir UNICEF í Bekaa-dalnum, eina af 47 sambærilegum búðum í landinu. Þar leikur hann sér í fótbolta en hann stundar einnig nám, m.a. í ritlist. Í síðasta ritlistartíma skrifaði hann þessa ljóðrænu ritgerð:
Einn daginn hringdi frændi minn og spurði hvort við værum örugg. Síðan versnaði ástandið sífellt. Við urðum að fara til Líbanons. Og nú búum við í tjaldi.
Ég er númer. Búðirnar mínar hafa númer. Tjaldið mitt er með númer. Bekkurinn minn er með númer. Skilríkin mín eru með númer. Ég er ekki lengur manneskja, ég er númer. Ég er orðinn mjög leiður á númerum. Ég vil fara héðan, aftur til Sýrlands. Og takist mér það gef ég fús hverjum sem er númerið mitt.