Því hefur verið haldið fram að kynferði geti haft áhrif á mat á sönnun í kynferðisbrotamálum. Boðað var til mótmæla eftir að sýknað hafði verið í fjórum kynferðisbrotamálum þar sem meðal annars var gerð krafa um að konum yrði fjölgað í dómarastétt. Í málunum fjórum dæmdu aftur á móti sex karlmenn og sex konur.
Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Símonar Sigvaldasonar, dómara við Héraðsdóms Reykjavíkur og formanns dómstólaráðs, á sameiginlegu málþingi lagadeilda Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík sem fór fram í HR í gær. Erindi hans bar yfirskriftina Sönnunargögn og sönnunarmat dómstóla.
Telur hann að millidómsstig verði mikilvæg réttarbót en muni aftur á móti ekki lægja þær óánægjuraddir sem liggja fyrir varðandi sakfellingar í kynferðisbrotamálum. Þá segir hann koma til greina að hið opinbera bjóði brotaþolum í kynferðisbrotamálum réttaraðstoð á þann hátt að brotaþolum verði veitt nauðsynleg aðstoð við að höfða einkamál á hendur einstaklingum sem brotaþolar telja að hafi valdið þeim miska með kynferðisbroti.
Hóf Símon erindi sitt á þeim orðum að nauðgun hafi á síðari tímum verið álitið eitt af alvarlegustu brotum gegn friðhelgi og persónu manna í vestrænum samfélögum. Sagði hann umræðu um þessi brot brýn en uppi sé gagnrýni á stofnanir samfélagsins, líkt og lögreglu ákæruvald og dómstóla.
„Við þær aðstæður dugar lítt að líta undan og láta málið sig ekki varða. Samfélagið umber ekki slíka nálgun, það er ekki lengur hægt að taka ekki símann, svara ekki dyrabjöllunni. Enginn kemst upp með slíkt hátterni nú á tímum,“ sagði Símon. Bætti hann við að dómstólar hefðu sannarlega fengið sinn skerf af gagnrýni að undanförnu en dómarar vildu síður en svo forðast umræðu um gagnrýnina.
Dómarar vilji aftur á móti vera virkir þátttakendur í umræðu um kynferðisbrotamál og meðferð þeirra í dómskerfinu. „Við erum þeirrar skoðunar að málefnaleg gagnrýni eigi ekki aðeins rétt á sér heldur hún sé mikilvæg og nauðsynleg í lýðræðsþjóðfélagi,“ sagði Símon einnig.
Sagðist hann telja æskilegt að sem jöfnust hlutföll séu innan dómarastéttarinnar en þannig sé samfélagið í eðli sínu. „Ég tel reyndar að það sé skammt að bíða að svo verði. Konum hefur fjölgað það mikið í laganámi á síðari árum að það mun sjálfkrafa leiða til þess áður en langt um líður að dómarar verða að meirihluta konur,“ sagði Símon.
„Í sönnunarfærslufelst að samkvæmt íslenskum rétti hvílir sú skylda á aðilum máls að upplýsa dómara um hver séu hin raunverulegu atvik máls. Þeir þurfa að leitast við að sanna eða afsanna staðhæfingar um staðreynd. Við sönnunarfærsluna geta aðilar síðan leitt fram ýmiskonar sönnunargögn,“ útskýrði Símon.
Þó svo að aðilum sé skylt að upplýsa mál fyrir dómi ber dómara engu síður skylda til að rannsaka af sjálfsdáðum og sjálfstætt öll atvik máls. „Að sönnunarfærslu lokinni þarf dómari síðan að vega og meta á grundvelli þess sem fram er komið hvaða staðreyndir ber að leggja til grundvallar við úrlausn málsins,“ bætti Símon við.
Sönnunarbyrði hvílir hjá ákæruvaldinu í sakamálum. Í því felst að yfirvöld mega ekki lýsa yfir eða grípa til ákveðinna aðgerða sem gefa í skyn að sakborningur sé sekur um tiltekið brot fyrr en sekt hans hefur verið sönnuð.
„En hvað felst í sönnun, spurði Símon. „Þegar það haldgóð rök hafa verið leidd að staðhæfingu um tiltekna staðreynd í dómsmáli að dómari líti svo á að eftir heilbrigðri skynsemi og mannlegri reynslu að hún sé rétt, þá telst hún sönnuð.“
Sagði hann að í þessu kæmu lykilatriði sönnunar fram. „Með öðrum orðum felst í sönnun í sakamáli einfaldlega í því að sannfæra þarf dómarann um tiltekna staðreynd og að hún sé rétt. Hvaða tæki hefur dómari við þá vinnu,“ spurði Símon. „Hann hefur vissulega lagaleg fyrirmæli til að fara eftir en engu að síður verður hann þegar öllu er á botninn hvolft við mat á sönnun fyrst og fremst að styðjast við sína eigin heilbrigðu skynsemi og mannlegu reynslu.“
„Þá er aðstæðunum rétt lýst. Við mannanna börn erum ekki fullkomin en þar fyrir utan þá búum við hvert og eitt að ólíkri reynslu auk þess sem við erum örugglega misjafnlega skynsöm,“ sagði Símon.
Benti hann á að sönnun hafi breyst í tímans rás og sú skoðun hafi til dæmis lengi verið við líði að börn væru ótrúverðug vitni. „Er þetta skýrt dæmi um hvernig mannleg reynsla hefur breyst í tímans rás sem gerir það verkum að sönnun verður með öðrum hætti en áður var. Það getur hver sem er séð að heilbrigð skynsemi er atriði sem lítur að hverjum og einum.
Ég vil þá nefna í þessu sambandi að því hefur verið haldið fram að kynferði geti haft áhrif við mat á sönnun. Að konur séu jafnvel líklegri heldur en karlmenn til að telja framkomna lögbundna sönnun í kynferðisbrotamáli. Því er þá væntanlega haldið fram að konur séu skynsamari en karlmenn út frá því er áður var sagt,“ sagði Símon.
Í síðustu viku gat að líta eftirfarandi skilaboð á vefmiðli: „Boðað hefur verið til mótmæla við Héraðsdóm Reykjavíkur í tilefni af sýknudómum sem fallið hafa í kynferðisbrotamálum undanfarið. Nokkrir sýknudómar sem fallið hafa síðustu daga í kynferðisbrotamálum hafa vakið mikla reiði í samfélaginu,“ sagði Símon og taldi upp málin fjögur sem vísað var til.
Um var að ræða dóm Héraðsdóms Suðurlands þar sem karlmaður var sýknaður af ákæru um að hafa nauðgað tæplega 18 ára gamalli stúlku á hótelherbergi og var vísað til gáleysisbrot, dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fimm ungir menn voru sýknaðir af ákæru um hópnauðgun í Breiðholti, dóm Héraðsdóms Vesturlands þar sem karlmaður var sýknaður af ákæru um að hafa þvingað 17 ára konu til samræðis og dóm Héraðsdóms Vestfjarða þar sem karlmaður var sýknaður vegna ákæru um kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku.
„Íslenskir dómstólar eru ófærir um að sinna starfi sínu eða tryggja réttlæti á Íslandi,“ sagði einnig í skilaboðunum og var gerð krafa um að konum yrði fjölgað í dómarastéttinni.
Frétt mbl.is: Dómarar ófærir um að sinna starfi sínu
Benti Símon á að í tveir karlmenn og ein kona hefðu dæmt í fyrri tveimur málunum og í seinni tveimur hafi tvær konur og einn karlmaður skipað dóminn. Í heildina hafi þá sex karlmenn og sex konur dæmt í málunum, þ.e. jafnt hlutfall kynjanna.
„Kynferðisbrotamál eru óvenjuleg sakamál vegna hagsmuna sem eru í húfi. Þá varðar bæði ákærða og brotaþola í kynferðisbrotamáli gífurlega miklu að orðum þeirra sé trúað. Að baki er oft harmsaga og þá geta afleiðingar brotanna verið það miklar að brotaþolar glíma við þær það sem eftir lifir ævinnar.
Dómstólar eru bundnir við það að dæma eftir stjórnarskrá og lögum sem Alþingi hefur sett. Falla kynferðisbrotamál vel að þeirri lagaumgjörð sem þar er sett? Þær óánægjuraddir sem heyrast virðast benda til þess að svo sé ekki,“ sagði Símon.
Innanríkisráðherra hefur boðað að lagt verði fram frumvarp til laga um millidómsstig hér á landi. „Þegar það verður að veruleika verður sönnunarfærsla sem fer fram fyrir héraðsdómi endurtekin á millidómsstigi. Að því er kynferðisbrot er að ræða verður að gera ráð fyrir að bæði brotaþoli og sakborningur gefi á ný skýrslu fyrir dómendum á millisdómsstigi. Sú málsmeðferð ætti að stuðla að því að réttur dómur falli í máli,“ sagði Símon.
„Í dag endurmetur Hæstiréttur ekki mat héraðsdóms á trúverðugleika framburða sem gefnir eru eru fyrir héraðsdómir. Að því leyti að bæði brotaþoli og sakborningur fá ekki endurskoðun á því hvort dómstóll meti framburð þeirra trúanlegan. Millidómstigið verður því mikilvæg réttarbót að þessu leyti.
Ég er hins vegar ekki viss um að millidómsstig lægi þær óánægjuraddir sem liggja fyrir varðandi sakfellingar í kynferðisbrotamálum. Það skiptir að sjálfsögðu miklu að sekir einstaklingar fái dóm fyrir brot sín og hæfilega refsingu. Til viðbótar við fangelsisrefingu á brotaþoli þess kost að fá dóm um miskabætur sér til handa,“ sagði Símon.
„Á meðan fangelsisrefsingu er ætlað að refsa ákærða fyrir brot sitt, er miskabótum ætlað að veita brotaþola ákveðna uppreisn og bæta honum það tjón sem hann hefur orðið fyrir. Ég held að fáum dyljist að núverandi löggjöf varðandi meðferð kynferðisbrotamála er brotaþolum fremur andsnúin,“ sagði Símon.
Sagði Símon koma til greina að hið opinbera bjóði brotaþolum í kynferðisbrotamálum réttaraðstoð á þann hátt að brotaþolum verði veitt nauðsynleg aðstoð við að höfða einkamál á hendur einstaklingum sem brotaþolar telja að hafi valdið þeim miska með kynferðisbroti.
„Um rekstur og meðferð slíkrar miskabótakröfu er farið að lögum um meðferð einkamála að því er varðar sönnun. Reglur um sönnun í einkamáli eru gjörólíkar þess er við á í sakamáli þar sem jafnræði er með aðilum í einkamáli þegar kemur að sönnun,“ sagði Símon.
„Vel þekkt er af öðrum vettvangi að sönnun um atvik hafi ekki tekist í sakamáli þar sem ákæruvaldið ber sönnunarbyrðina en þá hefur sönnun um sama atvik tekist í almennu einkamáli. Í samræmi við þetta gæti brotaþola tekist að ná fram sönnun um kynferðisbrot gegn sér í einkamáli þó svo að slík sönnun takist ekki í sakamáli.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi leið réttaraðstoðar fyrir brotaþola í einkamáli nær ekki því meginmarkmiði réttarvörslukerfisins að sekum einstaklingi skuli refsað fyrir brot sín.
Þó þessi leið geti verið aðferð við að ná fram viðurkenningu á því að að brot hafi átt sér stað, sem hlýtur að vera mikilvægt fyrir einstakling sem tekur að brotið hafi verið gegn sér. Það verðskuldar í það minnsta kosti umræðu að mínu viti,“ sagði Símon.