Ofsaveður? Hvað er nú það?

Vindaspá fyrir kl. 18 í dag. Bleiki og rauði liturinn …
Vindaspá fyrir kl. 18 í dag. Bleiki og rauði liturinn tákna vind yfir 24 m/s. Skjáskot/Veðurstofan

Veður­stofa Íslands varar við ofsaveðri síðdegis í dag með suðurströnd landsins. Það er því ekki úr vegi að rifja upp hvaða merk­ingu lýs­ing­in ofsa­veður hef­ur á tungu­máli veður­fræðimanna. 

Ofsa­veður er skil­grein­ing á vind­hraða. Í grein Trausta Jóns­son­ar veður­fræðings frá ár­inu 2007 má sjá list­ann yfir orðin sem notuð eru til að lýsa vind­hraða. Ofsa­veður er það kallað þegar vind­hraðinn nær 28,5-32,6 m/​s. Við svo mik­inn vind­hraða eru áhrif­in þau að mikl­ar skemmd­ir verða á mann­virkj­um og úti­vera á ber­svæðum verður hættu­leg. Vind­ur­inn rýf­ur hjarn og lyft­ir möl og grjóti. 

Hviður geta farið í 50 m/s

Á vef Veðurstofunnar má sjá nýjustu athugasemd veðurfræðings um veðrið síðdegis:

Búist er við ofsaveðri (meðalvindur yfir 28 m/s) síðdegis með suðurströndinni. Hviður geta farið yfir 50 m/s við Öræfajökul og undir Eyjafjöllum. Úrkoma á þessum slóðum byrjar sem snjókoma, en færir sig yfir í slyddu með tilheyrandi krapa á vegum. Það verður því ekkert ferðaveður með suðurströndinni síðdegis. Versta veðrið verður syðst, en það hvessir einnig annars staðar á landinu og undir kvöld verður víða orðið norðaustan hvassviðri eða stormur (15-23 m/s) með skafrenningi og síðar snjókomu þegar úrkomubakkinn færir sig norður yfir landið.

Athygli er einnig vakin á því að á morgun (laugardag) er útlit fyrir norðan storm með stórhríð á norðanverðu landinu, en sunnanlands verða stöku él og skafrenningur. Á sunnudag er útlit fyrir að lægi mikið og létti til, en þá má búast við talsverðu frosti.

Sjá veður­vef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert