Veðurstofa Íslands varar við ofsaveðri síðdegis í dag með suðurströnd landsins. Það er því ekki úr vegi að rifja upp hvaða merkingu lýsingin ofsaveður hefur á tungumáli veðurfræðimanna.
Ofsaveður er skilgreining á vindhraða. Í grein Trausta Jónssonar veðurfræðings frá árinu 2007 má sjá listann yfir orðin sem notuð eru til að lýsa vindhraða. Ofsaveður er það kallað þegar vindhraðinn nær 28,5-32,6 m/s. Við svo mikinn vindhraða eru áhrifin þau að miklar skemmdir verða á mannvirkjum og útivera á bersvæðum verður hættuleg. Vindurinn rýfur hjarn og lyftir möl og grjóti.
Á vef Veðurstofunnar má sjá nýjustu athugasemd veðurfræðings um veðrið síðdegis:
Búist er við ofsaveðri (meðalvindur yfir 28 m/s) síðdegis með suðurströndinni. Hviður geta farið yfir 50 m/s við Öræfajökul og undir Eyjafjöllum. Úrkoma á þessum slóðum byrjar sem snjókoma, en færir sig yfir í slyddu með tilheyrandi krapa á vegum. Það verður því ekkert ferðaveður með suðurströndinni síðdegis. Versta veðrið verður syðst, en það hvessir einnig annars staðar á landinu og undir kvöld verður víða orðið norðaustan hvassviðri eða stormur (15-23 m/s) með skafrenningi og síðar snjókomu þegar úrkomubakkinn færir sig norður yfir landið.
Athygli er einnig vakin á því að á morgun (laugardag) er útlit fyrir norðan storm með stórhríð á norðanverðu landinu, en sunnanlands verða stöku él og skafrenningur. Á sunnudag er útlit fyrir að lægi mikið og létti til, en þá má búast við talsverðu frosti.
Sjá veðurvef mbl.is