Skammbyssur í sex lögreglubílum

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar eru í dag geymdar skammbyssur í sex lögreglubifreiðum á höfuðborgarsvæðinu og í nokkrum bifreiðum á landsbyggðinni. Heildarfjöldi lögreglubifreiða á höfuðborgarsvæðinu hleypur hins vegar á tugum.

Þetta kom meðal annars fram í máli Ólafar Nordal innanríkisráðherra í sérstakri umræðu um vopnaburð lögreglunnar á Alþingi í dag að frumkvæði Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Velti hann því meðal annars fyrir sér hver væru bestu viðbrögðin við vaxandi hættu. Hvort það væri aukinn vopnabúnaður lögreglu, sérstaklega í ljósi þess að lögreglumenn væru í vaxandi mæli einir í bifreiðum sem hlyti að bjóða hættunni heim, eða meiri sýnileg löggæsla þar sem lögreglumenn væru í auknum mæli sýnilegir á götunum.

Ólöf lagði áherslu á að almenna lögreglan væri sem fyrr óvopnuð í störfum sínum og engin breyting hafi verið gerð í þeim efnum. Þá hafi engin ákvörðun verið tekin um aukinn vopnaburð lögreglunnar. Mikilvægt væri að það kæmi fram. Einungis væri um það að ræða hvort gerðar yrðu breytingar á geymslustað skotvopna. Hvort þau væru á lögreglustöðvum þar sem þyrfti samþykki yfirmanns til þess að nálgast mætti þau eða hvort þau væru í lögreglubifreiðum þar sem uppfylla þyrfti sömu skilyrði til þess að fá aðgang að þeim.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, fagnaði þeim orðum innanríkisráðherra að ekki stæði til að vopna almennu lögregluna í störfum sínum og að engin ákvörðun hefði verið tekin um slíkt. Lagði hann áherslu á að frekar ætti að bæta kjör lögreglumanna og annan aðbúnað en aðgengi þeirra að vopnum. Benti hann á að skorið hefði verið niður um þrjá milljarða hjá lögreglunni í kjölfar bankahrunsins. Það væri rangt að þetta hefði verið bætt. „Veik lögregla með vopn í hönd, hún er varasöm lögregla.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári
Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka