Fangelsin fá aukið fé

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. mbl.s/Rax

Fjárlagafrumvarpið með nefndaráliti og breytingartillögu meirihlutans var afgreitt úr fjárlaganefnd í dag og er nú tilbúið til annarrar umræðu. Að sögn Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, er gert ráð fyrir að umræðan fari fram á þriðjudag en þá hefst þingfundur klukkan 13:30.

Í samtali við mbl segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, að helstu breytingatillögur snúi að grunnstoðum samfélagsins.

Framlög til reksturs fangelsanna verða aukin um 45 milljónir króna samkvæmt tillögunum en Vigdís bendir á að kallað hafi verið eftir auknum fjármunum.

16.400 króna útvarpsgjald

Gert er ráð fyrir að útvarpsgjaldið verði 16.400 krónur en Vigdís segir að komið hafi í ljós að greiðendur útvarpsgjaldsins séu fleiri en áður var talið. Framlög til RÚV aukast um 60 milljónir króna og verða í heildina 3.550 milljónir króna sem munu renna óskipt til Ríkisútvarpsins.

Framlög til hafna og ljósleiðaravæðingar verða einnig aukin auk þess sem 400 milljónir verða lagðar í viðgerðir á flugvöllum landsins samkvæmt viðhaldsplani Isavia frá síðasta ári. 

Þá eru háskólarnir efldir lítillega. Háskólinn á Hvanneyri fær 58 milljónir króna, Háskólinn á Hólum fær 25 milljónir, Bifröst 50 milljónir, Háskólinn í Reykjavík 30 milljónir og 80 milljónir króna fara í aldamótasjóð Háskóla Íslands.

Níu milljarða útgjaldaaukning

Í breytingartillögunum er gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs hækki um 4,2 milljarða króna og verði rúmir 755 milljarðar króna.

Útgjaldaaukningin miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp nemur tæpum níu milljörðum króna og verða heildarútgjöldin samkvæmt þessu tæpir 690 milljarðar.

Gert er ráð fyrir 10,7 milljarða afgangi í ríkisrekstrinum eftir breytingar en fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir 15,3 milljarða afgangi.

Lækkunin nemur um 4,6 milljörðum króna.

Bjarni Benediktsson við kynningu á fjárlögum í Hörpu.
Bjarni Benediktsson við kynningu á fjárlögum í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka