Fyrr í dag varaði Veðurstofa Íslands við fárviðri sem skellur á sunnanvert landið eftir klukkan 15 á morgun. Eftir klukkan 19 má búast við ofsaveðri eða fárviðri um allt land. Í tilkynningu Veðurstofunnar er bent á að veðrið á morgun verði miklu verra en það veður sem var í síðustu viku, það er á þriðjudag, föstudag og í gær, laugardag.
Á föstudag og þriðjudag í síðustu viku var um að ræða ofsaveður. Það er þegar vindstyrkur er 28-32,6 metrar á sekúndu að meðaltali Þá má gera ráð fyrir miklum skemmdum á mannvirkjum, útivera á bersvæði verður hættuleg og veðrið getur rifið hjarn, lyft möl og grjóti.
En á morgun er um fárviðri að ræða og er það einu stigi fyrir ofan ofsaveður. Í fárvirðri fer meðalhraði vindhviða yfir 32,7 metra á sekúndu. Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar, segir á vef Veðurstofu Íslands. „Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.“
Með veðrinu á morgun fylgir úrkoma og verður hún í formi snjókomu og því má búast við glórulausum byl.