Jólaskapið kemur með stjörnunni

Jólastjarnan kominn upp á topp.
Jólastjarnan kominn upp á topp. Mynd/Lúðvík Þorsteinsson

Jólastjarnan fyrir ofan sementsgeymana á Akranesi var fest upp á dögunum. Það þýðir að Lúðvík Þorsteinsson og félagar í Sementsverksmiðjunni, og í raun flestallir Skagamenn, eru komnir í jólaskap.

Lúðvík er einn fimm manna sem enn starfa í Sementsverksmiðjunni en þar hefur hann verið frá árinu 1998. Framleiðslan var lögð niður fyrir þremur árum og í staðinn fær verksmiðjan innflutt sement frá Noregi.

Að sögn Lúðvíks hefur athöfnin þegar jólastjarnan er hengd upp verið fastur liður hjá starfsmönnum verksmiðjunnar í áratugi. Síðastliðinn mánudag hengdi hann stjörnuna upp í um fjörutíu metra hæð ásamt tveimur vinnufélögum sínum, auk kranamanns.

Laus við lofthræðsluna 

 „Hún var alltaf sett upp 12. desember, þegar jólasveinarnir byrja að koma til byggða. En við þurfum að sæta lagi með veður og það þarf að fá krana til að hífa þetta upp, þannig að við settum hana upp á mánudaginn. Það var algjör stilla og rosalega flott veður en samt skítkalt,“ segir Lúðvík, sem er alveg laus við lofthræðslu.

Fimmtíu ljósperur eru í jólastjörnunni og snýst hún hálfan hring. Eitt sinn var hún drifin áfram af gömlum þvottavélamótor en núna sér rafmótor um verkið. Ef skipta þarf um peru þurfa Lúðvík og félagar að gjöra svo vel og fara aftur upp. „Það er eitthvað sem þarf reglulega að gera eftir vont veður.“

Tengdamamma sendi skilaboð 

Hann segist iðulega fá góð viðbrögð frá bæjarbúum þegar jólastjarnan er komin upp. „Við fáum yfirleitt skilaboð frá fólki og svo þegar maður hittir það úti í bæ segir það: „Núna loksins eru jólin komin“. Tengdamamma sendi mér meira að segja skilaboð á mánudaginn og sagðist vera komin í jólaskapið,“ segir Lúðvík og hlær.

Lúðvík Þorsteinsson hefur starfað hjá Sementsverksmiðju Akraness í sautján ár.
Lúðvík Þorsteinsson hefur starfað hjá Sementsverksmiðju Akraness í sautján ár.
Útsýnið ofan af sementsgeymunum er fallegt.
Útsýnið ofan af sementsgeymunum er fallegt. Mynd/Lúðvík Þorsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert