Von á „glórulausum byl“ á morgun

Spá fyrir meðalvindhraða kl. 21 mánudaginn 7. desember. Rauðir, gulbrúnir …
Spá fyrir meðalvindhraða kl. 21 mánudaginn 7. desember. Rauðir, gulbrúnir og bleikir litir tákna hættulegasta vindinn Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands varar við fárviðri sem skellur á sunnanverðu landinu eftir klukkan 15 á morgun, mánudag. Eftir klukkan 19 má búast við ofsaveðri eða fárviðri um allt land. Með fylgir úrkoma og verður hún í formi snjókomu og því má búast við glórulausum byl. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Búast má við miklu úrkomumagni um landið austanvert. Seint annað kvöld er útlit fyrir að það hlýni nægilega sunnan til á landinu til að úrkoma verði í formi slyddu eða rigningar.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að langt suður í hafi sé lægð í myndun. „Hún dýpkar með eindæmum hratt í nótt og er þrýstingi í miðju hennar spáð 944 mb seint annað kvöld og á hún þá að vera stödd suður af Reykjanesi. Á þeirri stundu verður 1020 mb hæðarhryggur skammt N af Scoresbysundi á austurströnd Grænlands og heldur hann á móti lægðinni. Saman valda þessi tvö veðrakerfi vindstyrk af styrk ofsaveðurs eða fárviðris yfir Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur jafnframt fram að til þess að setja væntanlegt veður í samhengi er bent á að spáin fyrir morgundaginn hljóðar upp á miklu verra veður en var núna í vikunni sem er að líða, þ.e. þriðjudag, föstudag og laugardag.

Hér má sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert