Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að engin mistök hafi verið gerð með því að hætta akstri klukkan 17 í gær vegna óveðursins sem var í vændum.
Nokkrar klukkustundir liðu frá klukkan 17 þangað til óveðrið skall almennilega á og því hefði Strætó hugsanlega getað keyrt eitthvað lengur og komið fólki á áfangastað.
„Við urðum að taka mið af þeim aðvörunum sem höfðu komið frá almannavarnanefndum, neyðarstjórnum og áliti veðurfræðinga. Eftir fund í Skógarhlíðinni töldum við ráðlegast að strætó myndi ganga klukkutíma lengur en verið var að biðja fólk og fyrirtæki að halda heim á leið og loka,“ segir Jóhannes. „Þetta var algjörlega rétt ákvörðun og hún var gerð í góðu samráði við allra viðbragðsaðila.“
Jóhannes kveðst ekki hafa fengið neinar kvartanir yfir því hvenær strætó hætti að ganga í gær. Aftur á móti kvörtuðu einhverjir í morgun yfir því að strætó væri ekki byrjaður að ganga. Tilkynnt hafði verið á straeto.is að ferðir myndu ekki byrja af fullum krafti fyrr en um 8.30 vegna veðurs.
„Við vorum búnir að gefa það út að það myndu verða tafir í dag. Við erum með bækistöð í úthverfi [á Hesthálsi] og það var ekki stætt á planinu í morgun þegar fyrstu mennirnir mættu í vinnu klukkan sex. Við ákváðum að fresta brottför til rúmlega átta. Við höfum aðeins fengið ábendingar um að fólk hafi ekki vitað um þetta en það er erfitt að ná til allra,“ segir hann.