Bátum náð upp við fyrsta tækifæri

Sæmundur fróði að sökkva.
Sæmundur fróði að sökkva. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reynt verður að ná bátunum Sæmundi fróða og Glað, sem sukku við suðurbugtina við gömlu höfnina í Reykjavík í nótt, upp við allra fyrsta tækifæri.

„Það er ennþá myrkur. Við ætlum að skoða aðstæður undir hádegi. Við ætlum að sjá hvort við gerum eitthvað þegar hann snýr sér í sunnanátt eða þá að bíða til morguns. Það er ekki mengunarhætta en þetta verður gert við fyrsta tækifæri,“ segir Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsöguvörður hjá Faxaflóahöfnum.

Festingar á bryggjum í suðurbugt og „brimbrjót“ við Ægisgarð skemmdust svo og „fingur“ á flotbryggjunni í suðurbugt og verður hugað nánar að ástandi þar þegar vind hægir frekar. Í norðurbugt losnaði einn bátur, sem tókst að binda aftur, og í austurbugt urðu skemmdir á festingum á flotbryggju, að því er greint er frá á vefsíðu Faxaflóahafna.

Að sögn Gísla byrjuðu lætin um áttaleytið í gærkvöldi. Um svipað leyti lokaði lögreglan allri umferð um bryggjuna. Starfsmenn Faxaflóahafna reyndu hvað þeir gátu fram að því til að koma í veg fyrir tjón. „Við gerðum allt sem við gátum, meira getum við ekki,“ segir Gísli Jóhann.

Eigendur margra báta voru á svæðinu að huga að eignum  sínum. „Við sendum út sms í fyrrakvöld og vöruðum við veðrinu. Við hvöttum eigendur til að huga að landfestum og færa bátana ef mönnum sýndist svo.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka