Fann loftþrýstinginn í maganum

Inni í húsi við Smáragötu þar sem bútur úr þaki …
Inni í húsi við Smáragötu þar sem bútur úr þaki losnaði í fárviðrinu í gær. Ljósmynd/Ómar Garðarsson

Umtalsvert eignatjón varð í Vestmannaeyjum í gærkvöldi þegar að fárviðri gekk þar yfir. Sveinn Magnússon, íbúi við Smáragötu, fékk bút af þaki nágrannans í sitt eigið þak, áður en búturinn hafnaði í næsta botnlanga. Hann segist ekki hafa áður upplifað eins sterkan vind, þrátt fyrir að vera fæddur og uppalinn í efri byggðum bæjarins.

„Þetta var verst um 19-20 leytið í gærkvöldi. Það er þá sem hluti af þakinu hjá nágrannanum kemur aðeins við húsið hjá mér og það kom smá dæld,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is. Hann segist hafa heyrt vel í því þegar að búturinn lenti á þakinu.  „Það kom hvellur og við fundum að eitthvað skall á. En við sluppum miklu betur en nágrannarnir, við erum bara með smávægilegar skemmdir,“ segir hann og bætir við að húsið þar sem búturinn hafnaði á endanum hafi skemmst þó nokkuð.

Fann loftþrýstinginn í maganum

Sveinn segist ekki hafa upplifað veður eins og í gærkvöldi áður. „Það sem var sérstakt við þetta var að í gærkvöldi, milli klukkan svona sjö og tíu, myndaðist mikill loftþrýstingur inni í húsinu. Það var svolítið nýtt. Maður hefur lent í óveðri áður og að það fjúki af húsinu manns en ekki þennan þrýsting. Maður fann hann bara í maganum einhvern veginn, það var ekki þægilegt.“

Hann segist þó aldrei hafa orðið skelkaður í gærkvöldi, enda búinn að gera viðeigandi ráðstafanir. „Svo sváfu allir frímegin í húsinu og krakkarnir fengu ekki að sofa í herbergjunum sínum sem snúa í austur,“ segir Sveinn og bætir við að versta veðrið hafi ekki staðið lengi yfir. „Þegar þetta var dottið niður í 25 metra á sekúndu var þetta allt í fína. 40 metrar á sekúndu er svolítið mikið en það hafa oft komið þannig hviður þarna uppfrá.“

Þurfti ekki að skerða þjónustu

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að í dag hafi verið farið yfir stöðuna yfir eignatjón hjá Vestmannaeyjabæ eftir óveðrið. „Við eigum og rekum 18 stofnanir viðsegar um bæjarfélagið og höfum verið að fara yfir þetta. Það var ekki mikið eignartjón á stofnunum sveitafélagsins. Það var helst við nýja dælustöð á Eiðinu, þar fauk laust byggingaefni og klæðning skemmdist. Það er eina eignartjónið hjá bæjarfélaginu.“

Hann segir það jákvætt að veðrið í gær stóð ekki lengi yfir. „Við náðum nánast að ljúka gærdeginum án þess að skerða þjónustu og opnuðum kl 8 í morgun með nánast fulla þjónustu. Okkur finnst það skipta mjög miklu máli og að við séum ekki að hræða börn og skerða mikilvæga þjónustu ef ekki er þörf á slíku,“ segir Elliði en allir skólar og grunnskólar bæjarins voru opnaðir í dag og full þjónusta veitt.

Yfirvegun neyðaraðila skipti sköpum 

Hann segir þó að töluvert eignartjón hafi verið í bænum. Járnplötur losnuðu og fuku og svo varð tjón á nokkrum þökum eins og fram hefur komið.

„Manni finnst ömurlegast að heimili fólks skuli hafa orðið fyrir svona miklu tjóni sérstaklega í aðdraganda jóla. En mikilvægast er að ekki fór verr og að ekki hlaust af manntjón. Þar tel ég að yfirvegun björgunarsveita og lögreglu hafi skipt sköpum,“ segir Elliði. „Þegar menn nálgast viðfangsefni af jafn mikilli yfirvegun og þau gerðu í gær og ala ekki ótta í fólki hjálpar það helling til.“

Hann segir að fólk hafi þó eðlilega verið hrætt í veðrinu í gær. „Þetta var náttúrulega óskaplegur veðurhamur. En fólki fannst gott að vita af lögreglu og hafa stöðugar upplýsingar. Lögregla notaði Facebook og aðrar leiðir til að miðla upplýsingum og það róar fólk. Svo eigum við auðvitað frábæra björgunarsveit sem er alltaf tilbúin að fara á vettvang.

Mestu náttúruhamfarir í langan tíma

Elliði hefur verið bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í níu ár. Hann segir veðrið í gær mestu náttúruhamfarir sem hafa orðið í hans tíð. „Víða um bæ var þetta versta veður sem fólk mundi eftir, en það var mjög mismunandi eftir því hvar í bænum fólk var,“ segir Elliði. 

„Heima hjá mér var ástandið þannig að ég mundi eftir sambærilegu veðri. En ofar í bænum var það öðruvísi. Bróðir minn býr ofar í bænum, í Smáragötu, og þar var veðurhamurinn umtalsvert meiri. Hann man aldrei eftir eins slæmu veðri.“

Það getur oft verið slæmt veður í Eyjum.
Það getur oft verið slæmt veður í Eyjum. Ljósmynd/Skúli Már Gunnarsson
Skemmdir á húsi í byggingu inni á Eiði.
Skemmdir á húsi í byggingu inni á Eiði. Ljósmynd/Ómar Garðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert