Kynbundið ofbeldi á við náttúruhamfarir

Svanhvít Svavarsdóttir.
Svanhvít Svavarsdóttir.

Nauðsynlegt er að bregðast við kynbundnu ofbeldi eins og um náttúruhamfarir sé að ræða enda er vandinn með sanni félagslegar hamfarir. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna á blaðamannafundi stjórnarandstöðuflokkanna um breytingartillögur þeirra við fjárlög ársins 2016. 

Í breytingartillögunum er 200 milljónum varið til bóta í málaflokkinum og segir Svandís stjórnarandstöðuna vilja leggja áherslu á hann vegna þess mikla fjölda þolenda sem stigið hefur fram og sagt sögu sína.

„Árið 2015 er sögulegt ár í sögu kvenréttindabaráttu á Íslandi, ekki bara vegna 100 ára afmæli skosningaréttarins heldur vegna þess hve margar sterkar kvefrelsisbylgjur hafa risið,“ segir hún í samtali við mbl.is. Nefnir hún þar sérstaklega byltingu Beauty tips hópsins svonefnda gegn þöggun, frelsun geirvörtunnar með #freethenipple auk stríðsyfirlýsingar sigurvegara Skrekks 2015 í Hagaskóla.

„Þetta er gríðarlega mikil og öflug undiralda og í sumum þessara byltinga eru fórnarlömb svo alvarlegra hamfara í íslensku samfélagi að tala að það hefur verið búinn til hamfarasjóður af minna tilefni,“ segir Svandís.

Hún bætir við að með þeim orðum sé hún hreint ekki að gera lítið úr alvarleika hinna ýmsu náttúruhamfara heldur að leggja áherslu á umfang þess vanda sem kynbundið ofbeldi sé.

„Við erum nánast að sjá mannfall. Við erum að sjá konur á öllum aldri sem hafa orðið fyrir svo miklum skakkaföllum í sínu lífi að það er erfitt fyrir þær að ná fótfestu aftur.“

Segir hún stjórnarandstöðuna telja það sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld bregðist við vandanum með einhverjum hætti.

„Við vitum að  grasrótarhreyfingar eins og bæði Stígamót og Kvennaathvarfið eru með puttann á púlsinum og vita hvað er að gerast í þessum málaflokkum en við vitum líka að það er víða pottur brotinn í fjármögnun; bæði fyrir sakóknina og fyrir rannsóknir, fyrir lögregluembættin og ekki síður fyrir uppfræðslu og þekkingu á vegum dómstólanna,“ segir Svandís.

„Allt þetta eru verkefni sem þarf að fara í og við eigum að bregðast við eins og um hamfarir sé að ræða. Við eigum að setja peninga inní þetta með opin augun og ég vonast auðvitað til þess að það sé þverpólitískur áhugi á því.“

Frá fundi stjórnarandstöðunnar fyrr í dag.
Frá fundi stjórnarandstöðunnar fyrr í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka