Það er ótrúlegt að skoða tölur um umferð frá klukkan 17 í gær til miðnættis. Það má segja að það hafi varla nokkur verið á ferli samkvæmt upplýsingum úr kerfi Vegagerðarinnar.
Friðleifur I. Brynjarsson sem starfar hjá Vegagerðinni á Akureyri tók saman upplýsingar um umferð í Hvalfjarðargöngum, Hellisheiði og Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi í gær samanborið við mánudaginn fyrir viku síðan, 30. nóvember.
Við Dalveg er svipuð umferð báða dagana til klukkan 15 en þá fer að draga mjög úr umferð í gær og klukkan 15 fara um fimm þúsund bílar þar um 30. nóvember en í gær voru um 1.100 bílar þar á ferð á sama tíma. Klukkan 18 fer umferðin úr um fjögur þúsund bílum í um það bil 300 í gær.
Í Morgunblaðinu í dag kom fram að öllum heiðum og fjallvegum var lokað eftir hádegið í gær vegna veðurhamsins sem von var á. Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, er þetta í fyrsta skipti sem öllum heiðum og fjallvegum er lokað á landinu á sama tíma.
Fyrstu lokanir hófust strax á hádegi í gær en þá var vegum á Suðurlandi um Jökulsárlón, Mýrdalssand og Hvolsvöll lokað. Í heild náðu lokanir Vegagerðarinnar til 46 vega um allt land og þ.ám. var öllum vegum á um 600 km kafla, frá Hvolsvelli til Reyðarfjarðar, lokað.
Samkvæmt áætlun átti síðast að loka veginum undir Hafnarfjalli klukkan 21 í gærkvöldi. „Við höfum ekki haft þennan háttinn á áður. Þetta er stór hluti vegakerfisins,“ segir G. Pétur. Hann segir að auk viðbragða við slæmri spá hafi Vegagerðin verið að prófa nýtt verklag sem miðar að því að grípa inn í atburðarásina áður en fólk lendir í sjálfheldu. „Við settum upp hlið á fjallvegum í samráði við lögreglu. Svo voru björgunarsveitir með viðbúnað á flestum veganna,“ segir G. Pétur í samtali við Morgunblaðið í dag.