Vindinn lægir smám saman

Vind lægir smámsaman á landinu í dag um leið og lægðin sem gengið hefur yfir það grynnist og fjarlægist samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Á fjallvegum suðvestan- og vestanlands verða krapaél síðdegis og frystir undir kvöld. Almennt kólnar í kvöld og nótt og hitinn fer þá niður fyrir frostmark á ný víða um land.

Greiðfært er að mestu suðvestanlands en þó eru hálkublettir nokkuð víða. Hálkublettir eru víða á Vesturlandi. Auður vegur er við Hafnarfjall og að mestu á Snæfellsnesi en hálka er þó á Fróðárheiði. Hálka eða snjóþekja er á fjallvegum á Vestfjörðum en hálkublettir eða greiðfært á láglendi. Fara þarf um merkta hjáleið í Blönduhlíð í Skagafirði og því verða einhverjar umferðartafir þar í dag og næstu daga. Norðvestanlands er víða hálka eða hálkublettir. Hálka er á Öxnadalsheiði.

Norðaustanlands er hálka eða flughálka. Á Austurlandi er flughált mjög víða eins og t.d. á Vopnafjarðarheiði, Jökuldal og Vatnsskarði eystra. Hálka er á Fjarðarheiði, Fagradal og á Oddsskarði. Suðaustanlands er greiðfært.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert