Án rafmagns í 29 klukkustundir

Mynd úr safni
Mynd úr safni Orkubú Vestfjarða

Lokið var að reisa átta rafmagnsstaura í Öxarfirði skömmu fyrir klukkan sjö í morgun og kom þá rafmagn á alla bæi þar sem höfðu verið án rafmagns í meira en sólarhring, eða frá því á öðrum tímanum aðfararnótt þriðjudags, alls 29 klukkustundir.

Lokið var við að skipta um staur á Melrakkasléttu fjögur leytið í nótt og komst þar með rafmagn á Melrakkasléttu.  Því miður þarf þó að skammta á milli Melrakkasléttu og hluta Kópaskers, samkvæmt upplýsingum frá Steingrími Jónssyni, deildarstjóra hjá Rarik á Norðurlandi.

Ennþá er rafmagn skammtað á Raufarhöfn en búist er við að skömmtun ljúki upp úr hádegi. Viðgerðarflokkur frá Landsneti kom á svæðið í nótt og mun hefja vinnu við viðgerð á Kópaskerslínu nú fljótlega.

Þeir starfsmenn RARIK sem hafa fengið hvíld í nótt munu hjálpa til og áhersla verður lögð á stæðuna sem er biluð rétt sunnan aðveitustöð við fiskeldi Silfurstjörnu, en þrjár aðrar stæður eru brotnar nær Kópaskeri.  Búast má við því að rafmagn verði tekið af í Kelduhverfi í hálftíma þegar spenna verður sett á línuna í áföngum. Nú er spenna á Kópaskerslínu að aðveitustöð við Lindarbrekku í Kelduhverfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert