Ekkja manns sem lést á Landspítalanum árið 2012 segist vera „afskaplega glöð“ að hjúkrunarfræðingur sem var ákærður fyrir að bera ábyrgð á dauða hans hafi verið sýknaður í héraðsdómi í dag. Ingveldur Sigurðardóttir missti eiginmann sinn Guðmund Má Bjarnason fyrir þremur árum.
„Ég er bara afskaplega glöð að hún var sýknuð. Ég hef aldrei nokkurn tímann ásakað þessa blessuðu konu,“ segir Ingveldur í samtali við mbl.is. Hún segir síðustu mánuði og ár hafa tekið mikið á og að erfitt sé fyrir hana að tala um málið. Ingveldur segir það þó gott að málinu sé lokið í héraðsdómi. Nú þarf bara að vona að málinu verði ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Eins og fram kemur á mbl.is var Landspítalinn einnig sýknaður í héraðsdómi í dag.
Saksóknari fór fram á að hjúkrunarfræðingurinn Ásta Kristín Andrésdóttir yrði dæmd í fjögurra til sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða sakarkostnað upp á 1,2 milljónir króna. Hún var ákærð fyrir manndráp af gáleysi.