„Hefði ekki átt að ákæra“

Ásta Kristín var umkringd vinum og vandamönnum í héraðsdómi í …
Ásta Kristín var umkringd vinum og vandamönnum í héraðsdómi í dag. mbl.is/Jón Pétur

„Það hefði ekki átt að ákæra,“ sagði Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður hjúkrunarfræðingsins Ástu Kristínar Andrésdóttur, en hún var í dag sýknuð af ákæru um manndráp af gáleysi. Niðurstöðunni var ákaft fagnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, en þar var fjölmenni samankomið.

Einar Gautur bendir á, að það sé ekki til sá einstaklingur sem geti ekki gert mistök á hverjum degi. „Annars gæti enginn unnið í heilbrigðiskerfinu ef farið er að ákæra af minnsta tilefni. En í þessu tilfelli taldi ég alveg ljóst, að ákærða hefði alls ekki gert það sem hún var ákærð fyrir.“

Einar Gautur segir að það hafi ekki komið honum á óvart hversu mikið var fagnað þegar niðurstaðan lá fyrir. „Ég er búinn að átta mig á því að þetta snerti innstu kviku fólks, heilbrigðisstétta sem sjúklinga og annarra sem eiga viðskipti við kerfið.“

Einar Gautur og Ásta Kristín fara yfir dóminn í héraðsdómi …
Einar Gautur og Ásta Kristín fara yfir dóminn í héraðsdómi í dag. mbl.is/Jón Pétur

Hann bætti við að venjulegt fólk vilji ekki leggjast inn á sjúkrahús með starfsfólk fullt af ótta og angist um að verða ákært. Þá fyrst byrji mistökin að gerast.

Einar segir í samtali við mbl.is, að nú muni þau fara yfir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og mögulega muni Ásdís veita viðtöl síðar í dag, ef hún treystir sér til þess.

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags hjúkrunarfræðingar, fagnar niðurstöðunni í samtali við mbl.is. „Þetta er eins góð niðurstaða og gat orðið að okkar mati.“

Spurður út í næstu skref segir Ólafur, að menn verði að skoða það hvers vegna málið fór í þennan farveg. „Það þarf að fara að setja einhverjar reglur hvernig eigi að taka á svona alvarlegum atvikum innan heilbrigðisþjónustunnar, þannig að öryggi sjúklinga sé haft í fyrirrúmi. Við þurfum að læra af þeim mistökum sem eru gerð. etta er ekki rétta leiðin - að fara með mál fyrir dómstóla - heldur ætti að skipa einhverskonar nefnd sem fer yfir málin og geri það að verkum að fólk læri af mistökunum,“ segir Ólafur að lokum.

Fréttin verður uppfærð

Einar Gautur Steingrímsson í héraðsdómi í dag.
Einar Gautur Steingrímsson í héraðsdómi í dag. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert