Álag og undirmönnum á Landspítalanum er á meðal þess sem fjallað er um í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli hjúkrunarfræðings sem var í dag sýknuð af ákæru um manndráp af gáleysi árið 2012.
Fram kemur í dómnum að hjúkrunarfræðingurinn, Ásta Kristín Andrésdóttir, hafi unnið tvöfalda vakt 4. október 2012. Fyrst hafi unnið verið á erfiðri dagvakt á svæfingadeild Landspítalans, en eftir vaktina hafi hún verið kölluð á gjörgæsludeild og beðin um að taka þar kvöldvakt sem hún féllst á.
Þar var henni falið umönnun mannsins sem lést, en hún átti einnig að fara á vöknun og starfa þar á meðan álagspunkturinn gengi yfir.
Ásta, sem neitaði sök, sagði m.a. við aðalmeðferð málsins, að hún hefði verið „látin hlaupa út um allan spítala“ á margar starfsstöðvar og ekki fengið tíma til að sinna þeirri hjúkrun sem eigi að fara fram á gjörgæslu og hún lýsti. Annar hjúkrunarfræðingur, sem bar vitni við aðalmeðferð málsins, tók undir orð Ástu.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að Ásta hafi verið send á aðra deild spítalans á kvöldvaktinni, auk þess að aðstoða á nærliggjandi sjúkrastofu, vegna undirmönnun deildarinnar.
Tekið er fram, að vinnulag og vinnuhraði sem krafist hafi verið af Ástu og sundurslitin umönnun hennar með manninum, sem hafi verið vegna mikils álags og undirmönnunar deildarinnar, verði ekki metið Ástu til sakar. Jafnvel þótt Ásta hefði ekki greint öðrum hjúkrunarfræðingi, sem annaðist manninn meðan Ásta fór til að aðstoða í samliggjandi stofu, frá því að hún hefði sett manninn á talventil verður það ekki virt Ástu til sakar eins og á stóð.
Þá segir í dómi héraðsdóms, að ráða mætti af gögnum málsins að það sem fram kom á fundi yfirlæknisins á gjörgæsludeild Landspítalans og deildarstjórans með Ástu hafi orðið grundvöllur lögreglurannsóknar málsins en talið var að andlát mannsins hefði mátt rekja til mistaka Ástu.
„Aðrar hugsanlegar skýringar á andlátinu virðast ekki hafa verið rannsakaðar eftir þetta,“ segir í dómnum. Ennfremur segir, að þegar metinn sé vitnisburður yfirlæknisins og deildarstjórans, þá er það mat dómsins að ýmislegt bendi til þess að of geyst hafi verið farið í sakir að morgni 4. október 2012.
„Mál sýnast hafa skipast svo í þeirri hröðu atburðarás sem lýst var að hrapað hafi verið að niðurstöðu um það hver hefði verið meginorsök andláts sjúklingsins.“ Til frekari stuðnings þessu áliti dómsins sé vísað til vitnisburðar yfirlæknisins um að hún væri í vafa um banamein mannsins væri af ástæðum sem raktar hefðu verið fyrir dómi.
Bent er á að aðrir þættir sem gátu hugsanlega valdið andláti mannsins hafi ekki verið rannsakaðir. „Ákærða Ásta Kristín ber ekki hallann af því,“ segir í dómnum.
Þá segir að það hafi verið ósannað, gegn neitun Ástu, að henni hafi láðst að tæma loft úr kraganum greint sinn og að andlát sjúklingsins verði rakið til þess. Ber samkvæmt þessu að sýkna Ástu af broti gegn 215. gr. almennra hegningarlaga.
Í lok dómsins segir eftirfarandi: „Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið er ósannað að ákærða Ásta Kristín hafi gerst sek um háttsemina sem í ákæru greinir með afleiðingum sem þar er lýst. Er hún því sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins. Þessi niðurstaða leiðir til þess að Landspítalinn er einnig sýknaður í málinu. Eftir þessum úrslitum ber að vísa öllum bótakröfum frá dómi,“ segir í niðurlagi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur.