Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að það sé orðið lýðum ljóst að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun ekki sitja lengur en sem nemur kjörtímabilinu. Þetta kemur fram í grein sem hann ritar í Fréttablaðið í dag.
Hann hótar því að safna ásamt félögum sínum 100 þúsund undirskriftum landsmanna þar sem fólk heitir því að kjósa hvorki Framsóknarflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Hann segir það verk vera létt og löðurmannlegt enda ofbjóði þjóðinni.
„Í málflutningi sínum fyrir síðustu alþingiskosningar gagnrýndu núverandi stjórnarflokkar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hola að innan heilbrigðiskerfið og hétu því að styðja það betur ef þeir kæmust á valdastóla. Þetta gladdi þá okkar sem eru nægilega vitgrannir til þess að hlusta á það sem stjórnmálamenn segja fyrir kosningar. Nú æxluðust mál þannig að afturendar hinna loforðaglöðu hafa vermt valdastóla í tvö og hálft ár en heilbrigðiskerfið er í engu minna rusli en áður og það horfir ekki til bóta nema síður sé,“ skrifar Kári.
Spítali er miklu meira en hús
„Þetta er sama ríkisstjórnin og segist vilja reisa nýtt hús yfir Landspítalann fyrir hundrað milljarða króna og segir gjarnan, upp fyrir haus í sínum dæmigerða ruglingi, að hún vilji reisa nýjan Landspítala þótt spítalinn sé miklu meira og allt annað en hús þótt hann þurfi svo sannarlega á húsi að halda. Húsið er nefnilega ekki bara loforð sem verður erfitt að efna, það er líka skjól sem ríkisstjórnin felur sig á bak við þegar henni er bent á að það sé ýmislegt sem vanti upp á Landspítala.
Þegar maður er ríkisstjórn sem hefur lokkað að sér kjósendur með því að lofa því að bæta heilbrigðiskerfið þá endurreisir maður Landspítalann með því að sjá honum fyrir þeim tækjum sem nútíma læknisfræði kallar á og því fagfólki sem þarf til að hlúa að sjúkum og meiddum meðan maður safnar liði til þess að reisa nýtt hús. Það eru nefnilega margar leiðir aðrar en að reisa hús til þess að bæta heilbrigðiskerfið og spara með því þegar til langs tíma er horft,“ segir ennfremur í grein Kára í Fréttablaðinu en hana er hægt að lesa í heild hér.
Ábyrgðin þjóðarinnar
Að sögn Kára er fjársvelti Landspítalans og heilbrigðiskerfisins í heild sinni er svartur blettur á íslenskri menningu. Það sé hins vegar ekki bara ríkisstjórnum um að kenna heldur allri þjóðinni vegna þess að hún kaus til þess að stjórna landinu sem ákvað að svona ætti þetta að vera.
„Þetta á ekki bara við um núverandi ríkisstjórn því ástandið var jafnvel verra undir þeirri síðustu. Hvernig stendur á því að við sem þjóð sættum okkur við að hlúa svona illa að sjúkum og meiddum samborgurum okkar? Við þeirri spurningu veit ég ekkert annað svar en að það hlýtur að vera eitthvað mikið að höfuðskeljainnihaldinu okkar,“ skrifar Kári enn fremur.