Flutt úr landi í skjóli nætur

Flogið var frá Keflavíkurflugvelli til Þýskalands í nótt.
Flogið var frá Keflavíkurflugvelli til Þýskalands í nótt. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Hópur albanskra flóttamanna var fluttur af landi brott kl. 4 í nótt. Flogið var með fólkið til Þýskalands og því næst til Albaníu. Á meðal þeirra sem fluttir voru í nótt voru hjón með tvö ung börn, eða Kastrijot, Xhulia, Klea og Kevi Pepoj. 

Eng­inn Al­bani hef­ur fengið hæli hér á landi enn sem komið er en sam­kvæmt upp­lýs­ing­um og skýrsl­um er Alban­ía friðsælt lýðræðis­ríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógn­ar­stjórn.

Skúli Á. Sigurðsson, verkefnisstjóri á hælissviði hjá Útlendingastofnun, sagði í samtali við mbl.is í lok október að hvert mál sé skoðað sér­stak­lega og reyn­ist aðstæður í ein­hverj­um mál­um albanskra rík­is­borg­ara kalla á veit­ingu hæl­is eða annarr­ar alþjóðlegr­ar vernd­ar verði hún að sjálf­sögðu veitt viðkom­andi fólki eins og lög gera ráð fyr­ir.

Ekki hefur náðst samband við upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar í morgun. 

Frétt mbl.is: Enginn Albani fengið hæli á Íslandi

Óttast um líf sitt í Albaníu

Kastrijot, Xhulia, Klea og Kevi Pepoj voru sótt á heimili sitt í Barmahlíð kl. 1 í nótt og flutt með rútu ásamt fleiri Albönum út á Keflavíkurflugvöll. Maðurinn starfaði hjá Hermanni Ragnarssyni múrara í þrjá mánuði. Var hann fjölskyldunni innan handar og ætlar hann að heimsækja hana í sumar ásamt eiginkonu sinni.

„Ég gat það ekki,“ segir Hermann, aðspurður um hvort hann hafi verið viðstaddur þegar fjölskyldan var sótt í nótt. Hann segir fjölskylduna hafa tekið flutningnum illa, þau hafi viljað vera hér á landi. Kastrijot hafi óttast um líf sitt í Albaníu en frændi hann hefur oft komist í kast við lögin.

Þá hafi börnin unað sér vel í hér á landi eftir að þau fengu að ganga í leikskóla og skóla. „Hann fékk svo góða þjónustu hér, sonur þeirra sem er langveikur, var búið að finna lyf sem virkuðu vel á hann. Mér skilst að þessi lyf fáist ekkert í Albaníu. Það er ekki sama læknisþjónustan og hér,“ sagði Hermann í samtali við mbl.is.

Héngu í kjól móður sinnar

Hermann vissi ekki að Kastrijot væri hælisleitandi þegar hann hóf störf hjá honum. „Hann var búinn að vera hjá mér í tvær vikur þegar ég er staddur við hliðina á honum þegar hringt er í hann. Þá átti hann að mæta á fund hjá Útlendingastofnun og ég skutlaði honum af því að hann var bíllaus,“ segir Hermann.

Fyrst fóru þeir heim til Kastrijot til að sækja konu hans og börnin en hann vildi taka þau með sé rá fundinn. „Þá voru þessi litlu grey búin að hanga heima í sex eða sjö mánuði hjá mömmu sinni. Þau stóðu fyrir aftan hana og héngu í kjólnum hennar, lítil í sér og feimin,“ sagði Hermann.

Eftir að Hermann rak augun í umfjöllun í fjölmiðlum þar sem kom fram að börn hælisleitenda ættu rétt á leikskóla- og skólagöngu hér á landi hófst hann handa við að koma þeim að. Það hófst að lokum og segir hann líklega hafa hjálpað til að hann gat útvegað þeim bíl svo hægt væri að aka börnunum.

„Ég skil þetta ekki, hann ætlaði bara að fá að vinna hérna og bjarga sér sjálfur. Hann var ekki að reyna að lifa á kerfinu,“ segir Hermann að lokum.

Reglurnar flokki þau í ruslflokk

Katrín Júlíusdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, skrifaði á Facebook-síðu sína í morgun: 

„Þykir óskaplega leitt að stjórnvöld skuli hafa gert þetta. Langveikt barn sem tilheyrir fallegri fjölskyldu, sent úr landi að næturlagi í lögreglufylgd. Þau lögðu mikið á sig í leit að betra lífi. Tilbúin til að vinna og vera með okkur hér.

Af hverju gera menn svona? Þau eru rifin frá störfum, leikskóla og nýju félagslegu samgengi. Af því að þau pössuðu ekki inn í eitthvað box hjá ráðherranum? Ólöf talar fallega en felur sig á bakvið kríteríur sem fjarlægja mannúðina úr kerfinu. Ég skammast mín.“

Auður Jónsdóttir rithöfundur skrifaði á Facebook-síðu sína í gærkvöldi að reglurnar flokki fjölskylduna í ruslatunnu þar sem þau eru frá Albaníu. 

„En drengurinn er langveikur og bæði börnin hafa aðlagast vel hér á leikskóla og skóla og eignast góða vini, faðirinn hefur atvinnurekanda sem styður hann og ábyrgist og þykir vænt um fjölskylduna. Þau eru algjörlega sjálfbær hér á landi, sagði hann við mig í símann áðan, þó að honum leiðist orðið sem slíkt. Heimilisfaðirinn á á hættu að vera drepinn í Albaníu og þar fær sonurinn ekki þá læknishjálp sem hann þarf á að halda. Hann nær ekki andanum í verstu köstunum og er bara þriggja ára. Getum við tekið höndum saman að hjálpa þeim? Það hlýtur að vera leið,“ skrifaði hún. 

Albönsk yfirvöld fær um að vernda borgara sína

Í frétt á vef Útlendingastofnunar seg­ir að á und­an­förn­um árum hafi hæl­is­leit­end­ur frá Alban­íu verið afar áber­andi á Íslandi en fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­ing­ar og mann­rétt­inda­skýrsl­ur séu sam­hljóða um að Alban­ía sé friðsælt lýðræðis­ríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógn­ar­stjórn.

Þá seg­ir einnig að mann­rétt­indi séu al­mennt virt og eft­ir­fylgni við glæpi og af­brot sé góð þrátt fyr­ir að enn sé um­bóta þörf á sum­um sviðum. „Al­bönsk yf­ir­völd eru fær um að vernda borg­ara sína og veita þeim aðstoð,“ seg­ir í frétt­inni.

Þá seg­ir einnig að flótta­manna- og hælis­kerfið sé neyðar­kerfi, ætlað fólki sem ótt­ast um líf sitt og frelsi. Það sem af er þessu ári hef­ur Útlend­inga­stofn­un veitt 55 manns hæli eða aðra alþjóðlega vernd og árið 2014 voru slík­ar veit­ing­ar 43 tals­ins. Þarna eru ekki meðtal­in út­gef­in dval­ar­leyfi til kvóta­flótta­fólks en slík leyfi skipta tug­um.

Óðinn S. Ragnarsson fylgdist með þegar fjölskyldan var flutt af heimili sínu í nótt. Hann birti eftirfarandi myndskeið á Facebooks-síðu sinni í nótt: 

Albönsk fjölskylda sem kom hingað til lands í leit að betra lífi var send aftur til heimalands síns í nótt. Það er hræðilegt að ekki skuli vera hægt að veita fólki/ fjölskyldum sem hingað koma í neyð hæli af mannúðarástæðum eins og þessari fjölskyldu. Allir þeir sem komu að ákvörðuninni um að senda þessa fjölskyldu til baka mættu skammast sín. Fulltrúar Lögreglunnar sem mættu á staðinn mættu gera slíkt hið sama. http://stundin.is/frett/logreglan-leidinni-ad-fjarlaegja-albonsku-fjolskyl/

Posted by Óðinn S. Ragnarsson on Wednesday, December 9, 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert