Vill refsiaukaákvæði á Kaupþingsmenn

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnendur Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnendur Kaupþings. Mynd/mbl.is

Saksóknari í Chesterfield-málinu fer fram á að sakborningar verði dæmdir til allt að níu ára fangelsis, en vísar hann þar til refsiaukaákvæðis í almennum hegningarlögum sem heimilar að refsing sé aukin um helming hafi menn lagt í vana sinn að fremja brot. Áður hefur verið farið fram á að ákvæðið væri notað í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings fyrr á þessu ári, en dómurinn gerði það ekki, en fullnýtti þó refsirammann yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra bankans.

Í mál­inu eru þeir Hreiðar og Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, ákærðir fyr­ir stór­felld umboðssvik og fyr­ir að hafa valdið Kaupþingi „gríðarlegu og fá­heyrðu“ fjár­tóni, að því er seg­ir í ákæru. Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, er einnig ákærður í mál­inu fyr­ir hlut­deild í umboðssvik­un­um.

„Það var Hreiðar Már“

Málflutningur Björns Þorvaldssonar, saksóknara hjá embætti sérstaks saksóknara, fór fram í dag fyrir hádegi, en þar fór hann yfir málið í heild. Vísaði hann frávísunarkröfum ákærðu á bug, en í heild voru það sjö atriði.

Við vitnaleiðslur í málinu hafa ákærðu og verjendur þeirra ýtt undir að lykilvitni í málinu hafi borið ábyrgð á því sem ákært er fyrir og jafnvel borið á hann sakir fyrir innherjasvik. Saksóknari sagði í dag að þegar horft væri á feril málsins væri „ævintýralegt“ að halda því fram að vitnið hafi verið sá sem kom með fyrirmæli í málinu. „Það var Hreiðar Már,“ sagði Björn.

„Getur ekki bent á undirmenn sína“

 „Hreiðar getur ekki bent á undirmenn sína,“ sagði Björn í málflutningnum og benti til niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðu Al-thani máli þar sem sömu menn voru ákærðir. Sagði Björn að þar hafi komið fram að Hreiðari ætti vegna stöðu sinnar að vera ljóst að ekki væri hægt að afgreiða mál með jafn stuttum fyrirvara og hann hafði ætlast til nema að fara framhjá reglum bankans um útlán. „Ljóst að þetta var greitt samkvæmt fyrirmælum hans,“ bætti Björn við.

Magnús Guðmundsson hefur áður hlotið dóma sem fylltu refsirammann. Saksóknari …
Magnús Guðmundsson hefur áður hlotið dóma sem fylltu refsirammann. Saksóknari vildi að horft yrði til sérstaks refsiaukaákvæðis. mbl.is/Þórður

Varðandi hlut Magnúsar í málinu vísaði Björn í fyrri dóma Hæstaréttar. Meðal annars Exeter málið þar sem hann sagði svipaða stöðu hafa komið upp og varðandi Magnús í þessu máli. Þar hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að menntun og þekking viðkomandi um starfsemi banka hljóti að leiða til þess að honum hafi ekki geta dulist um brotin. Sagði Björn Magnús hafa vitað allt um málið og verið innvinklaður í það frá upphafi. „Hann er á báðum endum, hann er allsstaðar, hann er í upphafinu“

Túlkun umboðssvikaákvæðisins misjöfn

Birni var einnig hugleikið í ræðu sinni túlkun á umboðssvikaákvæði og hvort fara þyrfti út fyrir formlegt umboð. Sagði hann að reyndar væri rangt að kalla ákvæðið því nafni. „Snýst ekki um hvort þeir fóru út fyrir umboð, heldur hvort þeir misnotuðu aðstöðu sína,“ sagði Björn varðandi það til hvers dómarar ættu að horfa í ákvörðun um sekt eða sýknu í málinu.

Björn Þorvaldsson, saksóknari málsins.
Björn Þorvaldsson, saksóknari málsins.

Refsiramminn úr 6 árum 9 með refsiauka

Saksóknari fór að lokum yfir þá dóma sem ákærðu hafa fengið áður, en refsiramminn í auðgunarbrotum hefur þegar verið fylltur í tilvikum Magnúsar og Hreiðars í Al-thani málinu og stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Fór saksóknari því fram á að horft væri til 72. greinar almennra hegningarlaga um aukna refsingu, en almennt er refsiramminn 6 ár í svona málum og gæti því hækkað í 9 ár ákveði héraðsdómur að nýta ákvæðið.

„72. gr. Hafi maður lagt það í vana sinn að fremja brot, einnar tegundar eða fleiri, eða hann gerir það í atvinnuskyni, má auka refsinguna svo, að bætt sé við hana allt að helmingi hennar. Eigi ítrekun á þessu sér stað, má refsingin tvöfaldast.”

Um Sigurð sagði saksóknari aftur á móti að horfa ætti til þess að fullnýta almennan refsiramma, en Sigurður hefur nú þegar hlotið 5 ára fangelsi af 6 mögulegum. Þá mætti einnig horfa til þess að beita refsiauka ákvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka