Faxaflóahafnir borga tjónið

Sæmundur fróði að sökkva í gömlu höfninni í Reykjavík.
Sæmundur fróði að sökkva í gömlu höfninni í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gamla flotbryggjan í Reykjavík sem skemmdist í óveðrinu aðfaranótt þriðjudags er ekki tryggð og því munu Faxaflóahafnir bera allan kostnað af tjóninu sem þar varð.

„Hafnarmannvirki eru tryggð í viðlagatryggingu en ekki flotbryggjur. Þeir vilja ekki tryggja þær,“ segir Helgi Laxdal, forstöðumaður rekstrardeildar Faxaflóahafna.

Hann segist ekki gera sér grein fyrir því hversu mikið tjónið er. Spurður hvort það hlaupi á milljónum vill hann ekki leggja mat á það. „Þetta eru engar stórkostlegar upphæðir.“

Sjö „fingur“ af níu skemmdust

Sjö „fingur“ af níu skemmdust við bryggjuna í óveðrinu. Fingurnir svokölluðu sjá um að afmarka básana þar sem bátarnir liggja í höfninni.

Að sögn Gísla Jóhanns Hallssonar, yfirhafnsögumanns, er nokkurn veginn í lagi með botnfestur en þrír vírar sem tengja saman flekana á bryggjunni eyðilögðust.

Gagnrýni hefur komið upp um að sumir eigendur bátanna sem voru bundnir við bryggjuna hafi ekki fengið sms-skilaboðin sem Gísli Jóhann sagðist hafa sent á sunnudagskvöld. „Við sendum á öll númer sem við höfum á þessa báta. Ef einhver hefur breytt um númer og tilkynnir ekki um það er erfitt að fylgjast með því,“ segir Gísli.

Hvattir til að færa bátana sjálfir

Einnig kom upp gagnrýni um að hafnarstarfsmenn hefðu átt að færa bátana yfir í aðra bryggju áður en óveðrið skall á. „Í þessum skilaboðum sem fóru út voru menn beðnir um að gera viðeigandi ráðstafanir og færa bátana í aðrar viðlegur ef þörf var á. Ef eigendurnir færa ekki bátana sjálfir, þá er spurning hvort við eigum að taka þá. Þá erum við orðnir ábyrgir fyrir nýrri viðlegu og það gæti orkað tvímælis. Þannig að þetta er erfitt við að eiga,“ segir hann.

Tveir bátar sukku í höfninni í óveðrinu, Sæmundur fróði og Glaður. Búið er að hífa þá báða upp og er verið að meta skemmdir á þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert