Skírnir Garðarsson, prestur Lágafellssóknar, mun frá 1. janúar verða héraðsprestur. „Það gerir hann að eigin ósk þar sem þjóðkirkjan kallar hann til nýrra og aukinna verkefna,“ segir í frétt á vefnum Kirkjan.is.
Séra Ragnheiður Jónsdóttir og Skírnir, sem bæði voru prestar í Lágafellssókn, fóru í leyfi frá störfum til áramóta vegna óánægju innan sóknarinnar. Þetta kom fram í bæjarblaðinu Mosfellingi.
Í frétt kirkjunnar kemur fram að nú færist þjónustuskyldur Skírnis úr Mosfellsprestakalli yfir í Reykjavíkurprófastsdæmin eystra og vestra, Kjalarnesprófastsdæmi og Suðurprófastsdæmi. Verkahringur séra Skírnis verður áhugaverður og fjölbreyttur í ofangreindum prófastsdæmum.
Frétt mbl.is: Kvartað vegna eineltis í kirkjunni
Séra Skírnir hefur fjölþætta prestsreynslu hérlendis og erlendis frá. Hann starfaði sem prestur í Noregi til fjölda ára. Hin seinni ár hefur hann sinnt prestsþjónustu hérlendis. „Öll þessi reynsla mun nýtast honum á nýjum starfsvettvangi,“ segir í frétt kirkjunnar.